Viðskipti innlent

Ríkisendurskoðun ítrekar ábendingar til ráðuneyta

Haraldur Guðmundsson skrifar
Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi.
Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi.
Ríkisendurskoðun segir ráðuneytin ekki hafa brugðist með fullnægjandi hætti við átta ábendingum stofnunarinnar frá árinu 2010 sem varða innkaupamál ríkisins. 

„Árið 2010 beindi Ríkisendurskoðun samtals átta ábendingum til ráðuneytanna sem lutu að fylgni þeirra við innkaupastefnu ríkisins og fleiri þáttum innkaupamála. Tveimur ábendinganna var beint til allra ráðuneytanna, sem þá voru tólf, en sex ábendingum var eingöngu beint til fjármálaráðuneytisins. Öll ráðuneytin voru hvött til að auka vægi innkaupamála í starfseminni og beita innkaupastefnu sinni sem virku stjórntæki," segir í frétt á heimasíðu Ríkisendurskoðunar.

Þar segir að fjármálaráðuneytið hafi verið sérstaklega hvatt til að efla kynningu á og eftirlit með innkaupastefnu ríkisins sem og árangursmat á þessu sviði.

„Þá var ráðuneytið hvatt til að beita sér fyrir bættri skráningu innkaupa í bókhaldi ríkisins, samræma reglur um notkun rammasamninga, marka skýra stefnu um rafræn innkaup og framkvæmdaáætlun á því sviði og setja siðareglur um opinber innkaup."

Í frétt Ríkisendurskoðunar segir að nú þremur árum seinna hafi margt áunnist í þessum efnum. Engu að síður telur stofnunin ráðuneytin enn ekki brugðist með fullnægjandi hætti við þeim ábendingum sem beint var til þeirra.

„Að mati Ríkisendurskoðunar veldur áhyggjum hve lítið hefur miðað við að hrinda í framkvæmd mörgum þeirra áforma sem tíunduð eru í innkaupastefnu ríkisins frá árinu 2002. Stefnan hefur ekki verið endurskoðuð og uppfærð né hefur verið unnin stefna um rafræn innkaup. Þá hafa innkaupastefnur ráðuneytanna sjálfra almennt ekki verið endurskoðaðar en sumar þeirra eru komnar til ára sinna."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×