Viðskipti innlent

Safnað fyrir fyrsta tölublaði Neptún

Samúel Karl Ólason skrifar
Þær Ágústa, Elsa, Helga og Kolbrún standa að Neptún.
Þær Ágústa, Elsa, Helga og Kolbrún standa að Neptún.
Söfnun fyrir fyrstu prentun hins nýja tímarits Neptún hófst á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund. Neptún er nýtt íslenskt tímarit sem fjallar um myndlist, hönnun og arkitektúr. Í tímaritinu verður íslensk grasrót í forgrunni ásamt áhugaverðum einstaklingum hvaðanæva úr heiminum, eins og segir í tilkynningu.

„Markmið blaðsins er að kanna og kynna fjölbreytta flóru skapandi starfs á öllum stigum. Tímaritið á sér ekki hliðstæðu hér á landi og til að gera það aðgengilegt fyrir sem flesta þá verða textar tímaritsins bæði á ensku og íslensku.“ Fyrsta tölublað Neptún er væntanlegt í byrjun desember og verður eftirleiðis gefið út ársfjórðungslega.

Á bakvið tímaritið standa þær Ágústa Arnardóttir, Elsa Ýr Bernhardsdóttir, Helga Björg Kjerúlf og Kolbrún Þóra Löve, en þær hafa lokið námi ýmist í vöruhönnun, arkitektúr eða myndlist.

Á Karolina Fund er hægt að leggja háar og lágar upphæðir til styrktar útfáfu tímaritsins. Þeir sem styrkja útgáfuna geta á sama tíma forkeypt tímaritið, eignast stækkaðar myndir úr því, eignast sérútbúið prentverk eða fengið heilsíðuauglýsingu í tímaritinu.

Hægt er að styrkja útgáfuna hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×