Viðskipti innlent

Vilja framleiða teiknimyndaseríu á Íslandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Þröstur Bragason mun framleiða stuttmynd um Flopalongs og vonandi þáttaröð í framhaldi af því. Skjáskot af heimasíðu Flopalongs.
Þröstur Bragason mun framleiða stuttmynd um Flopalongs og vonandi þáttaröð í framhaldi af því. Skjáskot af heimasíðu Flopalongs.
Fyrirtækið Greene Toys hefur tekið upp samstarf við íslenska teiknimyndagerðamanninn Þröst Bragason um gerð stuttmyndar um „Flopalongs“. Næsta skref verkefnisins er að opna fjáröflunarsíðu á Karolina Fund vefnum til að safna áheitum.

Vonast er til að nægjanleg upphæð safnist fyrir til að framleiða stuttmynd sem sýnd verður fjárfestum. Í framhaldi af því verður framleidd sjónvarpssería um spennandi ævintýri Flopalongs. Hægt er að styðja verkefnið hér.

Flopalongs eru hugarfóstur Bandaríkjamannsins John Robert Greene. Markmið þeirra er að fræða börn um dýr í útrýmingarhættu um allan heim með því að tvinna saman ímyndunarafli og raunveruleika. Þegar framleiðsla þáttanna hefst munu 5% af öllum nettótekjum, sjónvarpsframleiðsla og sala varnings tengdum þáttunum, vera gefin til náttúruverndarsamtaka,“ segir í tilkynningu.

Þröstur segir lengi hafa staðið til að framleiða teiknimynd um Flopalongs en ekki hafi orðið af því vegna anna. „Við ákváðum að kýla á þetta núna, gera teiknimynd og sjá hvað verður úr því,“ segir Þröstur. Stefnt er á að framleiða efnið á Íslandi. Þröstur lærði teiknimyndagerð í Flórída í Bandaríkjunum 2001-2003 og segist aðspurður hafa verið með annan eða báða fæturna í teiknimyndagerð síðan.

Í upprunalegu teiknimyndasögunni gerist Flopalongs sagan á eyju sem er í eigu Gergs, en hann er samviskulaus illvirki sem misnotar allar þær náttúruauðlindir sem hann kemst í. Hann hefur komið sér upp einkadýragarði og í honum eru helstu karakterar þáttanna.

 

Drekinn Igbot sleppur úr prísundinni og fær ofurkrafta frá dularfullum loftsteini, en þeim kröftum deilir Igbot með hinum dýrunum í dýragarðinum. Þannig hefst barátta þeirra við Gerg og hans fylgimenn, en lokamarkmiðið er að bjarga öðrum dýrategundum sem eru í útrýmingarhættu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×