Viðskipti innlent

Ferðamönnum fjölgar um 17,6 prósent á milli ára

Samúel Karl Ólason skrifar
312.000 Íslendingar hafa flogið erlendis á þessu ári.
312.000 Íslendingar hafa flogið erlendis á þessu ári. Mynd/HAG
Um 53.000 erlendir ferðamenn fóru frá landi í október síðastliðnum samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Það er fjölgun um 7.900 ferðamenn frá október 2012, eða 17,6%. Frá því Ferðamálastofa hóf talningar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2002 hefur árleg aukning í október verið að jafnaði 10,9% á ári. Þó hafa sveiflur verið miklar í brottförum milli ára, segir í tilkynningu frá Ferðamálastofu.

Frá áramótum hafa 692.877 erlendir ferðamenn farið frá landinu, sem er fjölgun um 111.000 ferðamenn frá sama tímabili í fyrra. „Aukningin nemur 19,1% milli ára. Um 40% fleiri Bretar hafa heimsótt landið, fjórðungi fleiri N-Ameríkanar, ríflega fjórðungi fleiri frá löndum sem flokkast undir annað og um 14% fleiri Mið- og S-Evrópubúar. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað mun minna eða um 3,0%.“

Sé litið til þjóðernis ferðamannanna í okotóber koma flestir frá Bretlandi eða 24,6% og Bandaríkjunum, 13,5%. „Þar á eftir Norðmenn (8,9%), Danir (7,5%), Þjóðverjar (6,0%), Svíar (4,8%), Kanadamenn (3,7%) og Frakkar (3,2%). Samtals voru þessar átta þjóðir 72,2% ferðamanna í október.“

„Af einstaka markaðssvæðum fjölgaði Bretum, N-Ameríkönum og ferðamönnum frá öðrum mörkuðum mest. Þannig komu 3.542 fleiri Bretar í október ár, 1.526 fleiri N-Ameríkanar og 2.581 fleiri ferðamenn frá öðrum markaðssvæðum. Norðurlöndin og Mið- og S- Evrópa standa hins vegar í stað.“

Um 38.000 Íslendingar fóru frá Íslandi í október en það er 2.300 fleiri en í október 2012. Frá áramótum hafa 312.000 Íslendingar farið erlendis sem er svipaður fjöldi og á sama tímabili árið áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×