Innlent

Eignarhald banka á fyrirtækjum skekkir samkeppnisstöðu á markaði

Hjörtur Hjartarson skrifar
Félag atvinnurekenda fer þess á leit við stjórnvöld að þau grípi til aðgerða vegna þess mikla fjölda fyrirtækja í samkeppnisrekstri sem eru í eigu fjármálafyrirtækja. Þetta skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja á markaði og kemur illa niður á neytendum, segir framkvæmdastjóri samtakanna.

Í kjölfar efnahagshrunsins eignuðust fjármálastofnanir mörg fyrirtæki í samkeppni. Í lögum segir að fjármálastofnanir megi aðeins tímabundið eiga fyrirtæki í óskyldum rekstri. Í lögum sem sett voru 2010 segir að fjármálastofnanir hafa 12 mánuði til að ljúka endurskipulagningu fyrirtækja í sinni eigu og í kjölfarið selja þau. Ef fjármálastofnanirnar ná því ekki innan 12 mánaða tímarammans er hægt að sækja um undanþágu hjá Fjármálaeftirlitinu.

Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu voru í lok árs 2011, 74 fyrirtæki í óskyldum rekstri í eigu fjármálafyrirtækja, þar af höfðu 16 þeirra verið í eigu fjármálastofnanna í 12 mánuði eða lengur. Ári seinna voru þau 95, þar af 83 á undanþágu. Fyrirtækjunum á listanum fækkaði á milli ára og voru í september síðastliðnum 72. 68 þeirra höfðu verið í eigu fjármálastofnanna í 12 mánuði eða lengur.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda það ekki eðlilegt að 95 prósent fyrirtækjanna hafi verið í eigu fjármálastofnanna séu á undanþágu.

Félag atvinnurekenda vill að tímamörk eignarhalds verði stytt í 6 mánuði og ef sótt verði um aukinn frest verði að birta nafn fyrirtækisins sem um ræðir og eignarhluta bankans í fyrirtækinu.

„Við höfum óskað eftir því við fjármálaeftirlitið að fá upplýsingar um hvaða tímafrestir eru veittir og við teljum líka eðlilegt að FME veiti upplýsingar um hvaða fyrirtæki eigi í hlut þegar undanþágur eru veittar. Þessar upplýsingar liggja ekki fyrir en munum halda áfram að kalla eftir þeim,“ segir Almar.

Almar segir að þessi staða skapar óvissu á markaðnum og það sé óásættanlegt.

Að sögn Frosta Sigurjónssonar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar hafa fulltrúar frá Samkeppnisstofnun og fjármálaeftirlitinu verið boðaðir á fund nefndarinnar. Í kjölfarið verði ákveðið hvort tilefni sé til lagabreytingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×