Viðskipti innlent

Lýður og Sigurður mættu ekki

Stígur Helgason skrifar
Sigurður og Lýður eru væntanlegir til landsins í síðari hluta nóvember.
Sigurður og Lýður eru væntanlegir til landsins í síðari hluta nóvember.
Lýður Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Existu, og Sigurður Valtýsson, sem var annar forstjóra félagsins, mættu ekki við fyrirtöku á máli sérstaks saksóknara gegn þeim í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Til stóð að þingfesta ákæruna en verjendurnir Gestur Jónsson og Sigurmar K. Albertsson upplýstu að tvímenningarnir byggju báðir og störfuðu erlendis og hefðu ekki átt heimangengt. Þeir væru ekki væntanlegir til landsins fyrr en í síðari hluta nóvember mánaðar og fyrst þá gætu þeir mætt og tekið formlega afstöðu til ákæruatriðanna.

Í málinu er Lýður ákærður fyrir umboðssvik og brot á hlutafélagalögum og Sigurður einungis fyrir hið síðarnefnda, vegna starfa þeirra sem stjórnarmenn í Vátryggingarfélagi Íslands (VÍS) á árinu 2008 og 2009.

Samkvæmt ákærunni létu þeir VÍS lána hvor öðrum tugi milljóna út úr tryggingafélaginu í trássi við lög, auk þess sem Lýður lét VÍS verja á annað hundrað milljónum til að bjarga félagi í eigu svila Sigurðar frá þroti. Sigurður var sjálfur helsti kröfuhafi félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×