Viðskipti innlent

Engar kröfur af hálfu Seðlabankans og stjórnvalda

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands vísir/gva
Seðlabanki Íslands segir að engar kröfur hafi verið settar fram af hálfu bankans og stjórnvalda varðandi uppgjör í tengslum við slit Glitnis og Kaupþings, líkt og haldið hefur verið fram í fjölmiðlum.

Í tilkynningu segir að innan Seðlabankans hafi verið til skoðunar ýmsar hugmyndir um leiðir til þess að gera upp bú Glitnis og Kaupþings án þess að það leiði til óstöðugleika í gjaldeyrismálum eða tefli fjármálalegum stöðugleika í tvísýnu.

„Nokkrar leiðir sem fullnægja þessum skilyrðum gætu komið til greina. Engar ákvarðanir hafa verið teknar í þessu sambandi og Seðlabankinn getur því ekki tjáð sig um einstakar hugmyndir sem kunna eða kunna ekki að hafa verið viðraðar um lausn málsins. Einnig ber að undirstrika að losun fjármagnshafta er verkefni sem unnið hefur verið í samvinnu ríkisstjórnar og Seðlabankans og Seðlabankinn mun engu hrinda í framkvæmd hvað þetta varðar nema í samráði við fulltrúa hennar,“ segir í tilkynningunni.

„Eins og áður hefur komið fram telur bankinn það vera í verkahring slitastjórna bankanna að leggja fram tillögur að leiðum sem samrýmast ofangreindum markmiðum. Seðlabankinn mun að fengnum slíkum tillögum taka afstöðu til þess hvort þær samrýmist stöðugleika, þannig að veita megi nauðsynlegar undanþágur frá gjaldeyrislögum. Samkvæmt gjaldeyrislögum ber bankanum að hafa samráð við fjármálaráðherra áður en undanþága yrði veitt,“ segir ennfremur í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×