Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðirnir eiga þriðjung hlutabréfamarkaðarins

Samúel Karl Ólason skrifar
Hlutdeild lífeyrissjóða í íslenskum hlutabréfamarkaði hefur aukist um 4,4% frá ársbyrjun.
Hlutdeild lífeyrissjóða í íslenskum hlutabréfamarkaði hefur aukist um 4,4% frá ársbyrjun. Mynd/GVA
„Lífeyrissjóðirnir eru stærsti einstaki eigendahópurinn á íslenskum hlutabréfmarkaði með að minnsta kosti 30,3% hlut af heildarvirði markaðarins ef eignarhald þeirra er metið á grundvelli lista yfir stærstu eigendur.“ Þetta kemur fram í Morgunkorni Greiningardeildar Íslandsbanka.

Þar að auki hefur eignahlutur lífeyrissjóðanna aukist mest eigenda frá ársbyrjun, eða um 4,4%. Næst mest hafa innlendir fjárfestingarsjóðir bætt við sig um 3,7% og er heildareignarhlutur þeirra 11,5%. Erlendir aðilar eru næst stærsti eignahlutar hópurinn með 18,4% af hlutabréfamarkaði Íslands. Þó hefur eignarhlutdeild þeirra minnkað mikið á árinu, eða úr 23,9% í ársbyrjun.

Greiningardeildin gerir ráð fyrir því að endurfjárfestingar þörf lífeyrissjóðanna árið 2014 verði um 170 milljarðar króna. Hlutabréf og hlutabréfasjóðir eru um 10,3% af hreinni eign lífeyrissjóðanna og hefur það hlutfall hækkað um 2,3% frá áramótum. Hlutfall erlendrar hlutabréfaeignar er aftur á móti 30% af hreinni eign lífeyrisjóðanna.

Lífeyrissjóðirnir geta ekki fjárfest erlendis og deildin segir að miðað við fjárlagafrumvarpið megi ekki búast við mikilli ríkisbréfaútgáfu á næsta ári og því verði eftirspurn eftir hlutabréfum meiri á næstu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×