Viðskipti innlent

Össur hagnast um 1,6 milljarða króna

Haraldur Guðmundsson skrifar
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir í tilkynningunni að niðurstöður fjórðungsins sýni góðan árangur og sterkt sjóðstreymi.
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir í tilkynningunni að niðurstöður fjórðungsins sýni góðan árangur og sterkt sjóðstreymi.
Hagnaður Össurar á þriðja ársfjórðungi þessa árs nam þrettán milljónum Bandaríkjadala, eða um 1,6 milljarði íslenskra króna. Hagnaðurinn jókst um 28 prósentustig milli ára því hagnaður þriðja ársfjórðungs 2012 var tíu milljónir dala, eða 1,2 milljarðar íslenskra króna. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Sala fyrirtækisins nam 105 milljónum dala á fjórðungnum samanborið við 99 milljónir dala á þriðja ársfjórðungi síðasta árs. Sala á spelkum og stuðningsvörum jókst um 6 prósentustig og sala á stoðtækjum um fimm prósentustig.

„Framlegð nam 65 milljónum Bandaríkjadala og 62% af sölu, samanborið við 62 milljónir Bandaríkjadala og 63% af sölu á þriðja ársfjórðungi 2012. EBITDA nam 22 milljónum Bandaríkjadala og 21% af sölu, samanborið við 18 milljónir dala og 19% af sölu á þriðja ársfjórðungi 2012. Rekstrarkostnaður sem hlutfall af sölu var 45% samanborið við 47% á sama fjórðungi 2012. aðhaldsaðgerðir sem farið var í á öðrum ársfjórðungi skila nú þegar tilætluðum árangri,“ segir í tilkynningu fyrirtækisins. 

Jón Sigurðsson forstjóri Össurar segir í tilkynningunni að niðurstöður fjórðungsins sýni góðan árangur og sterkt sjóðstreymi. 

„Það er ánægjulegt að sjá að aðhaldsaðgerðir sem við hófum á öðrum ársfjórðungi eru nú þegar að skila tilætluðum árangri. Góður árangur í EMEA heldur áfram og á Bandaríkjamarkaði sjáum við nú þegar merki um jákvæða þróun. Þrátt fyrir jákvæð merki teljum við raunhæft að gera ráð fyrir áframhaldandi óvissu á Bandaríkjamarkaði næstu fjórðunga. Á fjórðungnum héldum við áfram að stykja stöðu okkar og til viðbótar við kaupin á TeamOlmed gengum við frá kaupum á tveimur litlum fyrirtækjum," segir Jón. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×