Viðskipti innlent

Vatnsfyrirtæki Jóns Ólafssonar tapaði milljarði

Icelandic Glacial vatnið er selt á erlendri grundu.
Icelandic Glacial vatnið er selt á erlendri grundu. Mynd/Anton Brink
Vatnsfyrirtækið Icelandic Water Holding tapaði um einum milljarði króna á síðasta rekstrarári. Þetta kemur fram á heimasíðu Viðskiptablaðsins. Fyrirtækið er í eigu Jóns Ólafssonar og tapaði fyrirtækið 9,1 milljónum dala á síðasta ári. Það er örlítið betri rekstrarniðurstaða en á árinu 2011 þegar fyrirtækið tapaði 9,9 milljónum dala.

Nokkuð dró úr söluandvirði vatns fyrirtækisins á flöskum undir merkjum Icelandi Glacial á milli ára. Verðmætið nam um 8,2 milljónum dala á árinu 2012 en 9,4 milljónum á árinu 2011.

Jafnframt lækkuðu eignir Icelandic Water Holdings lítillega á milli ára. Þær námu 142 milljónum dala á síðasta ári en voru 148,7 milljónir árið 2011. Skuldir hækkuðu lítillega, fóru úr 35,2 milljónum dala á árinu 2011 í 36 milljónir dala.

Jón Ólafsson stofnaði Icelandic Water Holdings ásamt Kristjáni syni sínum og eiga þeir samtals 40,6% í fyrirtækinu. Bandaríska fyrirtækið Anheuser Busch, sem m.a. framleiðir Budweiser bjórinn, á um 20% hlut í fyrirtækinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×