Viðskipti innlent

Tveggja milljarða hagnaður hjá Högum

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Mynd/Valli
Hagar hf. kynntu í dag árshlutareikning fyrir annan ársfjórðung. Hagnaður fyrirtækisins á tímabilinu nam um tæpum tveimur milljörðum króna og jókst vörusala ef miðað er við sama tímabil í fyrra.

Tímabilið nær frá 1. mars til 31. ágúst. Vörusala tímabilsins nam 37.794 milljónrum króna, samanborið við 35.569 milljónir fyrir sama tímabil a síðasta ári. Söluaukning félagsins nemur 6,26%.

Í tilkynningu frá Högum segir að rekstur félagsins á öðrum ársfjórðungi hafi farið umfram áætlanir. Rekstrarniðurstaðan var auk þess betri en á sama tímabili á fyrra ári. Horfur í rekstri næstu mánaða eru sambærilegar því sem verið hefur en áframhald verður á vinnu við bætt kostnaðarhlutföll og hagkvæmari aðfangakeðju.

Auk þess mun félagið skoða nýja fjárfestingakosti í kjarnastarfsemi, nýjar staðsetningar sem og áframhaldandi niðurgreiðslu skulda. Unnið verður áfram í leigusamningum félagsins með það að markmiði að fækka fermetrum og gera ákveðnar einingar hagkvæmari.



Helstu upplýsingar:


  • Hagnaður tímabilsins nam 1.973 millj. kr. eða 5,2% af veltu.
  • Vörusala tímabilsins nam 37.794 millj. kr.
  • Framlegð tímabilsins var 24,1% og lækkar um 0,1% frá fyrra ári.
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 3.003 millj. kr.
  • Heildareignir samstæðunnar námu 26.867 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Handbært fé félagsins nam 3.854 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Eigið fé félagsins nam 10.118 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Eiginfjárhlutfall var 37,7% í lok tímabilsins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×