Viðskipti innlent

WOW air formlega orðið flugfélag

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air, ásamt Birni Inga Knútssyni, framkvæmdastjóra flugrekstrarsviðs, með flugrekstrarleyfið.
Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air, ásamt Birni Inga Knútssyni, framkvæmdastjóra flugrekstrarsviðs, með flugrekstrarleyfið.
WOW air tók formlega við flugrekstrarleyfi frá Samgöngustofu í dag og er því formlega orðið flugfélag.

Um 30 ár eru liðin síðan flugrekstrarleyfi var veitt félagi sem stundar áætlunarflug til og frá Íslandi og segir í tilkynningu frá WOW air að leyfið sé liður í því að styrkja og byggja upp rekstur fyrirtækisins. Litið sé á það sem lykilatriði fyrir áframhaldandi vöxt WOW air að fljúga undir eigin flaggi, og að það gefi félaginu meiri stjórn á öllum rekstri sem sé þá ekki háður öðrum flugrekstraraðila.

WOW air fór í jómfrúarflug sitt árið 2012 og á síðasta ári tók fyrirtækið yfir flugrekstur Iceland Express.

„Samgöngustofa lýsir ánægju sinni með að nýtt íslenskt flugfélag skuli nú hafa fengið heimild til flugreksturs,“ segir Hermann Guðjónsson hjá Samgöngustofu. „Því fylgja ákveðnar skyldur og ábyrgð en einnig virðisauki fyrir íslenskt samfélag í formi ýmissa starfa tengdum flugrekstrinum. Samgöngustofa óskar nýjum rekstraraðilum góðs gengis í starfseminni og vonast eftir góðu og gifturíku samstarfi.“

WOW air réði á dögunum níu flugmenn og eru fleiri sagðir bætast í hópinn á næstu mánuðum. Með tilkomu flugrekstrarleyfisins verða flugmenn félagsins starfsmenn WOW air.

„Ég er fyrst og fremst þakklátur öllu því kraftmikla fólki sem starfar hjá WOW,“ segir Skúli Mogensen, stofnandi WOW air. „Einnig er ég þakklátur fyrir þær frábæru móttökur sem við höfum fengið frá íslensku þjóðinni frá fyrsta degi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×