Viðskipti innlent

Fiskafli jókst um 31 prósent í september

Haraldur Guðmundsson skrifar
Botnfiskafli jókst um rúm 11.500 tonn
Botnfiskafli jókst um rúm 11.500 tonn Mynd/Stefán Karlsson.
Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum septembermánuði nam alls 116.240 tonnum samanborið við 105.828 tonn í september 2012. Þegar heildaraflinn er metinn á föstu verði var hann 31,1 prósentum meiri en í september í fyrra. Það sem af er árinu hafa íslensk skip veitt 3,2 prósentum meiri afla en á sama tímabili árið 2012.

Frá þessu er greint á vef Hagstofu Íslands.

Þar segir að botnfiskafli hafi aukist um rúm 11.500 tonn. „Þar af var þorskaflinn tæp 20.700 tonn, sem er aukning um 2.300 tonn frá fyrra ári. Ýsuaflinn nam rúmum 4.000 tonnum sem er 849 tonnum meiri afli en í september 2012. Karfaaflinn nam rúmum 8.000 tonnum í september 2013 sem er um 3.100 tonnum meiri afli en í fyrra. Rúm 10.700 tonn veiddust af ufsa sem er um 5.800 tonna aukning frá september 2012.

Afli uppsjávartegunda nam tæpum 65.100 tonnum, sem er rúmlega 1.900 tonnum minni afli en í september 2012. Flatfiskaflinn var rúm 3.300 tonn í september 2013 og jókst um 804 tonn frá fyrra ári. Skel- og krabbadýraafli nam 883 tonnum samanborið við 972 tonna afla í september 2012,“ segir á vef Hagstofunnar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×