Viðskipti innlent

Hittu yfirmenn hjá Facebook og Apple

Haraldur Guðmundsson skrifar
Þorsteinn B. Friðriksson, framkvæmdastjóri og stofnandi Plain Vanilla
Þorsteinn B. Friðriksson, framkvæmdastjóri og stofnandi Plain Vanilla Mynd/Plain Vanilla.
Stjórnendur íslenska leikjaframleiðandans Plain Vanilla funduðu nýverið með yfirmönnum hjá Facebook og Apple.

Tilgangur fundanna var að ræða samstarf vegna útgáfu Quizup, sem er spurningaleikur sem Plain Vanilla hefur þróað.  Þetta kemur fram í tilkynningu frá Plain Vanilla.

„Bæði þessi þekktu fyrirtæki hafa aðkomu að undirbúningi þess þegar nýir leikir og forrit eru kynnt sem búist er við að njóti mikilla vinsælda. Einnig átti Plain Vanilla í sömu ferð fundi með ýmsum fjárfestingarsjóðum í Sílíkondal sem sýnt hafa áhuga á að koma að fyrirtækinu. Gert er ráð fyrir að QuizUp spurningaleikurinn, sem er app sem notendur hlaða niður í farsíma og spjaldtölvur, komi út í nóvember," segir í tilkynningunni.

Þorsteinn B. Friðriksson, framkvæmdastjóri og stofnandi Plain Vanilla, segir í tilkynningunni að það sé mikilvægt fyrir fyrirtækið að hafa aðila eins og Apple með sér í liði.

„Það eru fjárfestar á bakvið okkur sem fjármagna mikla markaðsherferð sem farið verður í, en það skiptir ekki síður máli að vinna með dreifingaraðilum. Það er síðan aðkoma þessara öflugu bandarísku fjárfesta sem tryggt hefur okkur beinan aðgang að Apple og Facebook og fleirum. Við fundum fyrir því að það ríkir mikil eftirvænting í tækniheiminum fyrir QuizUp," segir Þorsteinn. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×