Viðskipti innlent

Aflaverðmæti dregst saman á milli ára

UE skrifar
Mestur samdráttur eftir staðsetningu verkunarstaða er á Vesturlandi miðað við tímabilið janúar-júlí. Þar dróst verðmæti afla saman um 20 prósent.
Mestur samdráttur eftir staðsetningu verkunarstaða er á Vesturlandi miðað við tímabilið janúar-júlí. Þar dróst verðmæti afla saman um 20 prósent.
Aflaverðmæti íslenskra skipa hefur dregist saman um 5,6 prósent, eða um 5,4 milljarða króna, fyrstu sjö mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar í dag. Fyrstu sjö mánuði ársins 2012 var heildarverðmæti sjávarafla 95,7 milljarðar króna, en á þessu ári er verðmæti þess 90,3 milljarðar króna.

Verðmæti botnfisksafla var um 54,2 milljarðar og dróst saman um átta prósent. Þorskafli dróst saman um jafnmörg prósent og var verðmæti hans 27,7 milljarðar. Karfaafli dróst líka saman um 8 prósent miðað við sama tímabil í fyrra og nam tæpum 7,9 milljörðum króna. Aflaverðmæti ýsu dróst saman um 14,2 prósent og nam í ár 6,8 milljörðum króna. Verðmæti úthafskarfa og ufsaaflans jókst hinsvegar.

Afli sem seldur er beint frá útgerðunum til vinnslu innanlands dróst saman um 3,4 prósent og nam 45,5 milljörðum króna. Afli sem er seldur á markaði til vinnslu dróst hinsvegar saman um 6,4 prósent og nam fyrstu sjö mánuði ársins tæpum 12,8 milljörðum króna. Sjófrystur afli dróst saman um 6,7 prósent og nam 28,5 milljörðum króna. Afli sem fluttur er út óunninn nam tæplega 2,7 milljörðum króna á fyrstu sjö mánuðum þessa árs og dróst saman um 24,7 prósent miðað við sama tímabil í fyrra. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×