Viðskipti innlent

Orri Hauksson nýr forstjóri Skipta

Boði Logason skrifar
Orri Hauksson hefur verið ráðinn forstjóri Skipta.
Orri Hauksson hefur verið ráðinn forstjóri Skipta. mynd/365
Orri Hauksson hefur verið ráðinn forstjóri Skipta en hann hefur síðustu þrjú ár gegnt starfi framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins. Hann tekur við starfinu af Steini Loga Björnssyni.

Í tilkynningu er haft eftir Sigríði Hrólfsdóttur, formanni stjórnar Skipta, að það sé mikill fengur fyrir Skipti að fá Orra til starfa.

„Orri hefur viðamikla reynslu af fjarskiptamarkaðnum sem mun nýtast vel í þeim verkefnum sem eru framundan hjá fyrirtækinu. Með endurfjármögnun félagsins, sem lauk í sumar, er ljóst að framundan eru spennandi tímar hjá Skiptum og dótturfélögum þess.“ 

Orri segir að það sé afar ánægjulegt að koma aftur til starfa á fjarskiptamarkaðnum, og að það sé spennandi að fá tækifæri til að taka við Skiptum á þessum tímapunkti.

„Fyrirtækið og dótturfélög hafa góða stöðu í fjarskiptum og upplýsingatækni sem eru markaðir í örri þróun. Ég þakka stjórn Skipta fyrir traustið og hlakka til að takast á við verkefnið með stjórnendum og starfsfólki.“

Á árunum 2007-2010 sinnti Orri fjárfestingum og sat í stjórnum fyrirtækja fyrir hönd Novator, aðallega á sviði fjarskipta og hreinna orkugjafa í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum. Orri var framkvæmdastjóri þróunarsviðs Símans frá 2003-2007 og aðstoðarmaður forsætisráðherra á árunum 1997- 2000.

Hann er vélaverkfræðingur frá HÍ og MBA frá Harvard Business School. Orri kemur til starfa á næstu vikum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×