Viðskipti innlent

VÍB styrkir Víking Heiðar

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Víkingur Heiðar Ólafsson er einn af efnilegustu tónlistarmönnum Íslands.
Víkingur Heiðar Ólafsson er einn af efnilegustu tónlistarmönnum Íslands.
Víkingur Heiðar Ólafsson mun njóta góðs stuðnings frá VÍB, eignarstýringu Íslandsbanka, næstu tvö árin. Markmiðið með stuðningnum við Víking Heiðar er að styðja hann sem sjálfstæðan listamann. VÍB mun í samstarfi við Víking standa bæði fyrir fræðslufundum og tónleikum fyrir viðskiptavini sína.

Síðan Víkingur lauk námi frá Juilliard skólanum hefur hann komið fram víða um lönd og hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir leik sinn, m.a. verið valinn Flytjandi ársins þrisvar sinnum á Íslensku tónlistarverðlaunum. Víkingur hefur unnið með framúrskarandi tónlistarfólki, frumflutt fjóra íslenska píanókonserta og gefið út þrjá geisladiska hjá útgáfufyrirtæki sínu Dirrindí. Um þessar mundir einbeitir hann sér að tónverkum Johanns Sebastians Bach og stefnir að því að læra 19 hljómborðssvítur hans á þessum vetri meðfram tónleikahaldi.

„Víkingur Heiðar hefur vakið athygli fyrir mikla hæfileika en á sama tíma öguð vinnubrögð sem er ekki ósvipað því hvernig við viljum að viðskiptavinir okkar upplifi þjónustu okkar,“ segir Stefán Sigurðsson, framkvæmdastjóri VÍB.

„Víkingur Heiðar er að byggja sig upp sem sjálfstæður listamaður á alþjóðavísu og samstarfið við VÍB kemur til að hjálpa honum á þeirri braut. Við hlökkum til samstarfsins við Víking Heiðar næstu árin.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×