Viðskipti innlent

Lítil og meðalstór fyrirtæki greiða mest

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Lítil og meðalstór fyrirtæki greiddu lungann úr heildarlaunum í atvinnulífinu á síðasta ári. Heilarlaun í atvinnulífinu á Íslandi námu 555 milljörðum króna og greiddu lítil og meðastór fyritæki 2/3 af þeirri upphæð. Þetta kemur fram í úttekt Hagstofunnar sem unnin var í tilefni Smáþings sem haldið verður á Nordica Hótel næstkomandi fimmtudag.

Á þinginu verður stofnaður nýr vettvangur fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi undir merkjum Litla Íslands. Lítil fyrirtæki (með færri en 50 starfsmenn) greiddu um 44% heildarlauna í atvinnulífinu árið 2012 eða 244 milljarða króna. Örfyrirtæki (með 1-9 starfsmenn) greiddu 21% launa eða 116,5 milljarða.

Hlutdeild lítilla og meðalstórra fyrirtækja í verðmætasköpuninni er hærra á Íslandi en í ESB. Hlutdeildin var 66% á Íslandi árið 2012 en 58% í ESB.

Smáþingið fer fram á Hótel Reykjavík Nordica fimmtudaginn 10. október kl. 14-17. Þar sem verður stofnaður nýr vettvangur fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi undir merkjum Litla Íslands. Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök SA standa að þinginu.

Tilgangur Litla Íslands er að bæta rekstrarumhverfi lítilla fyrirtækja á Íslandi og að byggja upp kröftugra, betra og skemmtilegra samfélag. Íslenskt atvinnulíf er byggt upp af litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þau eru lykilþáttur í verðmætasköpun þjóðarinnar, veita tugum þúsunda vinnu og eru mikilvæg uppspretta nýrra starfa og hugmynda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×