Viðskipti innlent

Innlend starfsemi Norvikur seld til Stefnis

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Jón Helgi Guðmundsson segir að það sé mat fjölskyldunnar að komið sé að kynslóðaskiptum í fyrirtækinu.
Jón Helgi Guðmundsson segir að það sé mat fjölskyldunnar að komið sé að kynslóðaskiptum í fyrirtækinu. mynd/gva
Norvik hf., félag í eigu Jóns Helga Guðmundssonar og fjölskyldu, hefur undirritað kaupsamning um sölu á hluta innlendrar starfsemi félagsins til félags í rekstri Stefnis, dótturfyrirtækis Arion banka.

Í tilkynningu er kaupverðið sagt trúnaðarmál og er samningurinn gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins . Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka, Logos og KPMG voru ráðgjafar Norvikur við söluna.

Starfsemin sem um ræðir nær yfir verslunarrekstur á vegum Kaupáss, Elko og Intersport auk vöruhótelsins Bakkans og auglýsingastofunnar Expo. Eftir söluna verður BYKO enn í eigu Norvikur auk erlendrar starfsemi félagsins. Samningsaðilar munu ekki tjá sig frekar um viðskiptin á meðan þau eru til umfjöllunar hjá Samkeppniseftirlitinu.

Er haft eftir Jóni Helga Guðmundssyni að það sé mat fjölskyldunnar að komið sé að kynslóðaskiptum í fyrirtækinu. „Okkur er að sjálfsögðu ekki sama hverjir taka við keflinu á þessum tímamótum og það skiptir miklu að nýir eigendur deila að miklu leyti okkar sýn um uppbyggingu fyrirtækisins,“ segir Jón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×