Viðskipti innlent

Áfrýjunarnefnd staðfestir 500 milljóna sekt á Valitor

Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor.
Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti í gær 500 milljón króna sekt á greiðslukortafyrirtækið Valitor vegna alvarlegra samkeppnislagabrota árin 2007 og 2008.

Valitor var sektað í apríl síðastliðnum fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína með aðgerðum sem beindust gegn keppinautum félagsins á markaði.

Valitor verðlagði þjónustu sína fyrir færsluhirðingu, en það er þjónusta við söluaðila t.d. verslanir, með því að veita þeim heimild til að taka við greiðslum með greiðslukortum, taka við færslum þeirra og greiða þeim út þegar korthafar greiða reikninga sína.

Í úrskurðinum segir að með þessari undirverðlagningu hafi félagið verið líklegra til að fá samninga við söluaðila um færsluhirðingu vegna kreditkorta sem talin er arðsamari þjónustu. Var umfang þessarar undirverðlagningar verulegt og brot á 54. gein EES-samningsins.

Valitor er markaðsráðandi á þessum markaði og einnig starfa á markaðnum Borgun hf. og Kortaþjónustan.

Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins segir að Valitor einnig brotið gegn skilyrðum sem félagið hafi skuldbundið sig til þess að virða samkvæmt sátt sem var gerð árið 2007.

Það ár viðurkenndi Valitor viðtæk brot á samkeppnislögum og samþykkti að greiða stjórnvaldssekt sem nam 385 milljónum króna, og að hlíta tveimur skilyrðum sem ætlað var meðal annars að koma í veg fyrir að fyrirtækið myndi á ný misnota markaðsráðandi stöðu sína með aðgerðum sem ætlað var að valda keppinauti samkeppnislegu tjóni.

Valitor kærði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá því í apríl til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi, en til vara að sektin yrði felld niður eða lækkuð verulega.

Í gær staðfesti áfrýjunarnefndin úrskurð samkeppniseftirlitsins og er það mat nefndarinnar að misnotkun Valitor á markaðsráðandi stöðu sinni og brot á skilyrðunum tveimur séu alvarleg. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×