Viðskipti innlent

Sigmundur Davíð vill takmarka hlut eigenda bankanna

Brjánn Jónasson skrifar
Takmarka ætti hlut einstakra hluthafa í íslenskum bönkum að mati Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra.
Takmarka ætti hlut einstakra hluthafa í íslenskum bönkum að mati Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Mynd/Valli
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segist þeirrar skoðunar að setja eigi takmörk á hversu stóran hlut hver einstakur eigandi má eiga í íslenskum bönkum. Þetta kom fram í svari Sigmundar Davíðs í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. 

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Sigmund Davíð út í stöðu fjármálakerfisins í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi eftir hádegi. Hann spurði meðal annars hvort forsætisráðherra teldi mikilvægt að skilja á milli fjárfestingarbanka og viðskiptabanka, og um áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna sem ráðherrann hafi boðað nú í haust.

Sigmundur Davíð sagði mögulega svigrúm til að nota lagasetningu til að ýta undir meiri aðskilnað milli fjárfestingabanka. Hann sé áhugasamur um að fara þá leið, og hafi verið ósáttur við hvernig staðið hafi verið að stofnun nýju bankanna eftir hrun.

Helgi Hjörvar
Endurskoða ríkisábyrgð á innstæðum

Sigmundur sagði ekki rétt að hann hafi boðað áætlun um afnám gjaldeyrishaftana nú í haust, en sagði að nú hafi stjórnvöld fengið mun betri mynd af því en áður hvaða leiðir séu færar við losun hafta. Þar sé þó ekki hægt að nefna ákveðnar dagsetningar eða nánari útlistun á því með hvaða hætti höftin verði afnumin á þessari stundu.

Helgi Hjörvar spurði einnig um stöðu innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum, hvort þær njóti enn fullrar ríkisábyrgðar og hvort fyrirhugað sé að breyta því. Sigmundur Davíð sagði ríkisábyrgðina standa, en benti á að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi tilkynnt að til standi að endurskoða það fyrirkomulag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×