Viðskipti innlent

Segir gjaldeyrishöftin veita Landsbankanum skjól

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.
Hætta er því að Landsbankinn fari í þrot ef ekki tekst að endursemja um þunga endurgreiðslubyrði af 290 milljarða króna skuldabréfi bankans við þrotabú gamla Landsbankans. Frá þessu var greint á fundi með kröfuhöfum í London. Bankastjórinn segir hins vegar enga hættu á slíku vegna gjaldeyrishaftanna.

Landsbankinn hefur óskað eftir meiri tíma til að greiða niður jafnvirði 290 milljarða króna skuldabréfs við þrotabú gamla Landsbankans. Var þetta áréttað á sérstökum fundi í Lundúnum í gær með kröfuhöfum gamla bankans að því er fram kemur í breska dagblaðinu Guardian.

Blaðið greinir frá því að samningamenn hafi greint frá því að Landsbankinn, sem er nær alfarið í eigu ríkissjóðs, færi í þrot ef þess yrði krafist að hann hæfi á næsta ári erfiða endurgreiðsluáætlun á skuldabréfinu, sem er í evrum.

Endurgreiðslubyrðin of þungbær fyrir þjóðarbúið

Seðlabanki Íslands hefur áður gefið út að endurgreiðslubyrði vegna skuldabréfsins sé of þungbær fyrir þjóðarbúið en sérfræðingar bankans hafa sagt að lengja þurfi í bréfinu eða endurfjármagna það. Umrætt skuldabréf var gefið út við endurreisn bankanna sumarið 2009 í samningum stjórnvalda og þrotabúa föllnu bankanna.

Fréttastofan náði tali af Steinþór Pálssyni, bankastjóra Landsbankans nú í morgun.

Er það rétt sem kemur fram í Guardian að ef ekki takist að semja um þessa þungu endurgreiðslubyrði af skuldabréfinu fari bankinn í þrot? „Nei, ég held að þarna sé eitthvað ofsagt. Við erum með gjaldeyrishöft í þessu landi og það verndar stöðuna. Við viljum hins vegar ekki treysta á gjaldeyrishöft til langs tíma. Við viljum leysa þetta mál og þess vegna áttum við þennan fund í London, til þess að fylgja eftir bréfi okkar frá 28. maí þar sem við óskuðum eftir formlegum viðræðum og breyta skilmálum bréfanna. Slíkar viðræður gætu leitt til ávinnings fyrir alla aðila. Kröfuhafarnir eru ekki að fá greitt út úr þrotabúi gamla Landsbankans og með því að semja þá geta þeir fengið greitt út og allir myndu vera betur settir á eftir,“ segir Steinþór.

Vilja dreifa greiðslum yfir lengri tíma

Fundurinn var með slitastjórn gamla Landsbankans og kröfuhafaráði þess banka. Eins og áður segir eiga afborganir af skuldabréfinu í erlendri mynt að hefjast á næsta ári. Steinþór segir að lausn gæti falist í því að dreifa afborgunum yfir lengri tíma.

Hvað gerist ef ykkur tekst ekki að semja við þá? „Þá erum við í þeirri stöðu að það eru gjaldeyrishöft í þessu landi og þeir komast ekkert út með peningana. Þetta verður bara fast í einhverju hér heima. Við myndum þá borga gamla bankanum og gamli bankinn yrði fastur með peningana inni í landinu og þannig fjármagnar kerfið sig sjálft,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×