Viðskipti innlent

16 milljarða tap ríkissjóðs á öðrum ársfjórðungi

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Tekjuafkoma hins opinbera reyndist neikvæð um rúma 16 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi 2013 sem er lakari niðurstaða en á sama tíma 2012 er hún var neikvæð um rúma 14 milljarða króna. Tekjuhallinn nam 3,8% af landsframleiðslu ársfjórðungsins eða 8,7% af tekjum hins opinbera. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Fyrstu sex mánuði ársins nam tekjuhallinn 2,9% af landsframleiðslu tímabilsins eða 6,8% af tekjum hins opinbera, sem er nokkru meiri halli en á sama tímabili 2012, þegar hann nam 6,3% af tekjum.

Heildarskuldir ríkissjóðs námu 1.913 milljörðum króna í lok 2. ársfjórðungs 2013 sem samsvarar 109,1% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Hrein peningaleg eign ríkissjóðs, þ.e. peningalegar eignir umfram skuldir, var neikvæð um 864 milljarða króna í lok ársfjórðungsins, en það samsvarar 47,5% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Hrein peningaleg eign ríkissjóðs dróst saman um 61 milljarð króna milli 2. ársfjórðungs 2012 og 2013.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×