Viðskipti innlent

Heildarlaun félaga í VR hækkað um 7%

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Heildarlaun félaga í VR hafa hækkað um tæp 7% milli ára samkvæmt launakönnun sem kynnt var í dag. Þetta er ívið meira en launavísitala Hagstofunnar sýnir á sama tímabili. Kaupmáttur heildarlauna jókst um tæp 3% á sama tímabili en félagsmenn í VR hafa sagst vilja leggja höfuðáherslu á að efla kaupmátt launa sinna.

Launamunur kynjanna helst óbreyttur milli ára og stendur í 9,4% en barátta VR fyrir jafnrétti hefur skilað umtalsverðum árangri til lengri tíma. Í upphafi árs var kynnt ný leið, jafnlaunavottun VR sem ætluð er til að ná enn betri árangri í þeirri baráttu.

Aðrar athyglisverðar niðurstöður úr könnunni eru meðal annars þær að vinnutími kvenna hefur lengst eftir hrun en karla hefur staðið í stað. Nú munar aðeins þremur klst. á vinnuviku karla og kvenna í fullu starfi en árið 2004 munaði næstum því fimm klukkustundum. Vinnuvikan er að meðaltali 43,5 stundir, karlar vinna 45,1 klst. en konur 42,1 klst.

Ánægja með launakjör er óbreytt frá 2012, 46% svarenda eru ánægð með launakjör en í janúar árið 2008, rétt fyrir hrun, var þetta hlutfall nær 55% og 54% árið 2009, í fyrstu könnun eftir hrun. Grunnlaun félagsmanna VR eru að meðaltali 473 þúsund á mánuði en heildarlaun 507 þúsund að meðaltali.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×