Viðskipti innlent

812 milljóna hagnaður hjá Isavia

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia.
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. Mynd/Samsett
Afkoma Isavia á fyrri helmingi ársins 2013 var góð og umfram áætlanir félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Rekstrartekjur samstæðunnar Isavia og dótturfélaganna Fríhafnarinnar og Tern Systems námu 8.920 milljónum króna, sem er 8% hækkun frá sama tímabili árið 2012.

Stærstan hluta tekjuaukningarinnar má rekja til fjölgunar farþega um Keflavíkurflugvöll sem var 18,4%. Tekjur af flugleiðsöguþjónustu vegna yfirflugs og umferðar til og frá Íslandi jukust um 3,6% frá fyrra ári.

Rekstrarhagnaður var 812 milljónir króna sem er 9,1% af tekjum samstæðunnar, heildarafkoma félagsins nam 1.367 milljónum króna og er þar tekjufærður gengishagnaður 1.089 milljónir króna. Heildarafkoma félagsins fyrir sama tímabil árið 2012 var 88 milljónir króna en gjaldfært gengistap nam þá 208 milljónum króna.

„Hálfsársuppgjör Isavia sýnir að félagið er stöndugt og rekstur þess er tryggur,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. „Umsvif félagsins hafa aukist verulega undanfarin ár í takt við mikla aukningu ferðamanna, enda er félagið einn af lykilaðilum í íslenskri ferðaþjónustu. Aukningin var þó ekki ófyrirséð og ráðist var í talsverðar fjárfestingar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar síðastliðinn vetur til þess að bæta flæði og auka þægindi flugfarþega. Nýtt brottfararhlið var tekið í notkun í norðurbyggingu, svæðum í suðurbyggingu var breytt í biðsvæði farþega og verslunarsvæði stækkað og endurbætt.“

Björn Óli segir að einnig hafi verið ráðist í stækkun flughlaðsins og hafinn er undirbúningur að smíði 4.000 fermetra þjónustubyggingar sem mun hýsa flugvallarþjónustudeild undir einu þaki í nágreni flugstöðvarinnar. Kostnaður við þessar endurbætur er áætlaður 3,5 milljarðar króna. Gert er ráð fyrir að á næstu árum þurfi að veita 5-10 milljörðum króna í stækkunar flugstöðvarinnar og endurbóta á flugbrautum.

„Það er því ljóst að til framtíðar litið þarf rekstur Isavia að standa undir miklum fjárfestingum svo tryggt sé að áætlaðri farþegaaukningu verði mætt með sóma,“ segir Björn Óli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×