Viðskipti innlent

Aðsókn að sýningum kvikmyndahúsa dróst saman um 12%

Haraldur Guðmundsson skrifar
Á síðasta ári voru starfrækt fimmtán almenn kvikmyndahús með 41 sýningarsal á tíu stöðum á landinu.
Á síðasta ári voru starfrækt fimmtán almenn kvikmyndahús með 41 sýningarsal á tíu stöðum á landinu. Mynd/Daníel Rúnarsson.
Aðsókn að almennum sýningum íslenskra kvikmyndahúsa dróst saman um 12 prósent á árunum 2009 til 2012. Árið 2012 voru kvikmyndahúsagestir 1,4 milljón talsins, en það jafngildir því að hver landsmaður hafi sótt 4,5 sýningar á árinu. Andvirði seldra aðgöngumiða á landinu öllu nam einum og hálfum milljarði króna á árinu.

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Hagstofu Íslands.

Þar segir að kvikmyndahúsagestum á höfuðborgarsvæðinu hafi fækkað lítillega á milli áranna 2012 og 2011, á sama tíma og þeim fækkaði um 16 prósent utan höfuðborgarsvæðisins.

„Á árinu voru frumsýndar níu leiknar íslenskar kvikmyndir í fullri lengd, þar af voru átta teknar til almennra sýninga í kvikmyndahúsum. Markaðshlutdeild íslenskra kvikmynda var níu af hundraði miðað við aðsókn, en 11 prósent miðað við andvirði greiddra aðgöngumiða. Sýningargestum á íslenskrar kvikmyndir fjölgaði um þrjá af hundraði í fyrra frá árinu á undan. Aðsókn að íslenskum myndum hefur ekki verið meiri síðan árið 2002. Fjöldi áhorfenda á hverja íslenska mynd sem sýnd var í kvikmyndahúsum á síðasta ári var ríflega 13.000.

Hlutdeild bandarískra kvikmynda var langsamlega mest á liðnu ári hvort heldur er miðað við aðsókn eða tekjur af miðasölu, eða 71 prósent og 82 prósent," segir í frétt á heimasíðu Hagstofunnar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×