Viðskipti innlent

Landsframleiðsla jókst um 2,2 prósent

Haraldur Guðmundsson skrifar
Einkaneysla fyrstu sex mánuði ársins 2013 jókst um 1,2% samanborið við fyrstu sex mánuði ársins 2012.
Einkaneysla fyrstu sex mánuði ársins 2013 jókst um 1,2% samanborið við fyrstu sex mánuði ársins 2012.
Landsframleiðsla á fyrstu sex mánuðum ársins 2013 jókst um 2,2% að raungildi samanborið við sama tímabil árið 2012.

Þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, drógust á sama tíma saman um 1%. Einkaneysla fyrstu sex mánuði ársins 2013 jókst um 1,2% samanborið við fyrstu sex mánuði ársins 2012. 

Á sama tíma dróst fjárfesting saman um 13% að raungildi borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2012. Hagstofan segir samdráttinn að miklu leyti mega rekja til mikils innflutnings á skipum og flugvélum á 1. og 2. ársfjórðungi í fyrra. Að frádreginni fjárfestingu í skipum og flugvélum jókst fjárfesting um 4,1% á fyrstu sex mánuðum ársins.

„Miðað við sama ársfjórðung árið áður dróst fjárfesting saman um 5,5% að raungildi. Fjárfesting atvinnuvega dróst saman um 10,1% en fjárfesting hins opinbera jókst um 14,7%. Á sama tímabili stóð íbúðafjárfesting í stað. Árstíðaleiðrétt fjárfesting jókst um 11,9% á 2. ársfjórðungi 2013 borið saman við 1. ársfjórðung 2013. Fjárfesting atvinnuvega jókst um 16,7%, fjárfesting hins opinbera um 6,9% og íbúðafjárfesting um 0,6% á sama tímabili.

Útflutningur fyrstu sex mánuði ársins 2013 jókst um 1,1% að raungildi borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2012. Þar af jókst þjónustuútflutningur um 4,7% en á móti dróst vöruútflutningur saman um 0,8%. Innflutningur fyrstu sex mánuði ársins 2013 dróst saman um 4,6%. Þar af vöruinnflutningur um 4,3% og þjónustuinnflutningur um 5%. Miðað við sama ársfjórðung fyrra árs jókst útflutningur um 1,8% og innflutningur dróst saman um 2,3%,“ segir í hagtíðindum Hagstofu Íslands. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×