Viðskipti innlent

Steingrímur Páll þarf að greiða þrotabúi Kaupþings 91 milljón

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Steingrímur Páll Kárason sem var framkvæmdastjóri áhættustýringar Kaupþings hefur verið dæmdur til að greiða þrotabúi bankans 91 milljón króna ásamt vöxtum. Slitastjórn Kaupþings á nú í viðræðum við Sigurð Einarsson um 550 milljóna króna kröfu sem hann var dæmdur til að greiða þrotabúinu í fyrra. Slitastjórn Kaupþings kyrrsetti eignir Sigurðar upp á þriðja hundrað milljónir króna.

Steingrímur Páll hafði líkt og aðrir lykilstjórnendur bankans tekið lán hjá bankanum til hlutabréfakaupa. Í tilviki Steingríms Páls var lánið jafnvirði eins milljarðs króna.

Dómstólar hafa sem kunnugt er áður dæmt ólögmæta þá ákvörðun stjórnar bankans að fella niður persónulegar ábyrgðir stjórnenda af þessum lánum. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem hefur ekki verið birtur, var Steingrímur dæmdur til að greiða þrotabúi bankans 91 milljóna króna ásamt dráttarvöxtum. Þá var staðfest kyrrsetningargerð í eignarhlut Steingríms í félaginu Hvítsstöðum ehf. sem hann á með nokkrum fyrrum lykilstjórnendum Kaupþings og eignarhlut hans í tveimur fasteignum í Reykjavík.

Sigurður Einarsson fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings banka.
Á síðasta ári var Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, dæmdur til að greiða þrotabúinu tæplega 550 milljónir króna í sambærilegu máli. Þá voru kyrrsettir hlutir hans í Hvítsstöðum ehf., helmingshlutur í einbýlishúsi hans á Seltjarnarnesi og sumarhús og jörð í Stíflisdal sem ekki má rugla saman við risavaxið hús hans í Veiðilæk. Þessar kyrrsettu eignir hlaupa samtals á þriðja hundrað milljónum króna.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur Sigurður Einarsson lýst því yfir að hann eigi ekki nægt laust fé til að standa undir kröfum slitastjórnarinnar en hann á í samningaviðræðum við þrotabúið um dómkröfuna.

Steingrímur Páll og Sigurður voru með réttarstöðu sakbornings í rannsókn sérstaks saksóknara á meintri markaðsmisnotkun Kaupþings banka, en meðal gagna málsins eru upplýsingar um að áhættustýring bankans hafi haldið upplýsingum um kaup bankans á eigin bréfum leyndum fyrir stjórn Kaupþings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×