EVE: Valkyrie kemur út á næsta ári. Leikurinn byggir á nýrri tækni á sviði sýndarveruleika (e. virtual reality) þar sem spilurum er gefinn kostur á að gerast flugmenn í geimskipum í EVE heiminum.
Leikurinn er hraður og óvæginn þar sem spilarar eigast við í skotbardögum. Sýndarveruleikinn sem leikjahönnun EVE: Valkyrie byggir á gerir upplifunina einstaklega raunverulega og þannig úr garði gerða að það er engu líkara en spilari leiksins sé kominn í flugstjórasæti geimskipsins, þar sem hann mætir óvinum sínum og hættum, að því er segir í tilkynningu frá CCP.
Myndband úr leiknum má sjá hér að neðan.

„Það sem byrjaði sem ástríða hjá litlum hópi hæfileikaríkra starfsmanna CCP varð að einum umtöluðustu leikjum ársins – og það áður en við tilkynntum um útgáfu hans,“ er haft eftir Hilmari Veigari Péturssyni í tilkynningu frá CCP.
„Við erum með metnaðarfull áform fyrir EVE: Valkyrie og ég get ekki beðið eftir að við komum fram með frekari upplýsingar um leikinn þegar líður á árið.“