Viðskipti innlent

Orkuveitan tekur lægra tilboði - mikil leynd yfir samningnum

Valur Grettisson skrifar
Borgaráðsfundur stendur nú yfir hjá Reykjavíkurborg, en þar verður meðal annars tekist á um sölu á Magma-skuldabréfi. Stjórnarformaður Orkuveitunnar segir leynd yfir málinu umhverfi sem löggjafinn hafi sett fyrirtækinu.

Morgunblaðið greindi frá því í dag að meirihluti borgastjórnar Besta flokksins og Samfylkingarinnar, hygðust selja skuldabréf Orkuveitunnar í Magma-Energy fyrir 8,6 milljarða króna. Orkuveitan samþykkti söluna fyrir sitt leyti í júní, og var gengið að lægra tilboðinu.

Greitt verður fyrir bréfin í tveimur hlutum. Fyrri greiðslan fer fram 30. ágúst næstkomandi og er mun hærri en ef gengið hefði verið að hinu tilboðinu.

Haraldur Flosi Tryggvason er stjórnarformaður Orkuveitunnar. Spurður hversvegna gengið hafi verið að lægra tilboðinu svarar hann:

„Nú hagar því þannig til að það er leynd af fjárhagi þessarar sölu, enda Orkuveitan skráð á markaði, ég get því ekki rætt þetta þannig," segir Haraldur Flosi.

Spurður hvort þetta sé ekki óheppileg staða að útsvarsgreiðendur fái ekki upplýsingar um málið, svarar hann:

„Þetta er það umhverfi sem löggjafinn hefur sett okkur og ég hef ekkert um það að segja í sjálfu sér."

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins gagnrýnir í dag tíma sölunnar, en álverð er með því lægsta þessa dagana og vill hann meina að um hálfgerða hraksölu sé að ræða.

Um þetta segir Haraldur:

„Álverðið er ein breytingin í þessu, og sitt sýnist hverjum, alþjóðlegar spár eru ekki góðar, og því er betra að selja núna.“

Haraldur bætir við að búið sé að gera ítarlegt mat á stöðu þessa bréfs og fýsileika þess að eiga það fyrir orkuveituna „og niðurstaðan er einhlít og tekur mið af hættustefnu fyritækisins að það er ekki ásættanlegt að eiga þetta,“ bætir Haraldur við.

Fundur borgarráðs stendur nú yfir í Ráðhúsi Reykjavíkur. Umræður um sölu bréfsins ættu að hefjast eftir hádegi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×