Viðskipti innlent

Ríkið dregur lappirnar vegna hönnunarsamkeppni á Geysissvæðinu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hugmyndasamkeppni um framtíðarhönnun á Geysissvæðinu hefur frestast því fjármálaráðuneytið neitar að samþykkja texta í útboðslýsingu um að hönnun eigi að taka mið af framtíðargjaldtöku á svæðinu. Þetta er niðurstaðan þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi markað þá stefnu að slík gjaldtaka verði hafin.

Til stóð að auglýst yrði samkeppni meðal arkitekta og hönnuða um framtíðarskipulag Geysissvæðisins í júní síðastliðnum.

Voru nokkrir arkitektar í startholunum vegna þessa og þá voru landeigendur á geysissvæðinu að búa sig undir að samkeppnin yrði að veruleika.

Nauðsynlegt að hanna svæðið upp á nýtt til að bregðast við átroðningi

Var það afstaða nær allra sem eiga aðkomu að málinu samkeppnin færi fram sem fyrst en talið er bráðnauðsynlegt að hanna Geysissvæðið upp á nýtt til að bregðast við átroðningi ferðamanna. Hér er átt við aðkomu að svæðinu, stíga og annan aðbúnað við þessa náttúruperlu. Ríkissjóður á hverina og svæðið sjálft en einkaaðilar eiga jarðir í kring og legja síðan afnot af landinu til ferðaþjónustuaðila.

Birting auglýsingarinnar vegna hönnunarsamkeppninnar hefur hins vegar tafist þar sem fjármálaráðuneytið, sem heldur á eignarhlut ríkisins í Geysi, hefur ekki viljað samþykkja texta í samkeppnislýsingu um að hönnun taki mið af framtíðargjaldtöku á svæðinu. Þetta þykir orka tvímælis þar sem það er yfirlýst stefna núverandi ríkisstjórnar að innleiða gjaldtöku á ferðamannasvæðum.

Úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar.
Orðrétt segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að „kannaðir verði möguleikar á gjaldtöku til uppbyggingar ferðamannastaða til að bregðast við auknum fjölda ferðamanna í náttúru Íslands." 

Segir ótímabært að samþykkja skilmála meðan óvissa er um form gjaldtöku

Þórhallur Arason er yfirmaður þeirrar skrifstofu fjármálaráðuneytisins sem annast umsýslu eigna ríkisins. Þórhallur staðfesti í samtali við fréttastofu að ráðuneytið hefði gert athugasemdir við orðalag í samkeppnislýsingu og ekki samþykkt hana. Hann sagði að ástæðan væri sú ekki lægi fyrir hvernig gjaldtöku yrði háttað og í hvaða formi hún yrði, þ.e hvort þetta yrði almenn gjaldtaka í formi náttúrupassa eða eitthvað annað. Þess vegna væri ekki tímabært að ræða hvort sett yrði upp hús við Geysissvæðið vegna gjaldtökunnar. Þórhallur sagði að málið yrði tekið upp í ágúst næstkomandi.

Halldóra Vífilsdóttir, aðstoðarforstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins og formaður dómnefndar í samkeppninni, sagðist eiga von á því að gerð samkeppnislýsingar myndi liggja fyrir í ágúst og að í kjölfarið yrði samkeppnin auglýst.


Tengdar fréttir

Geysir að drabbast niður

Einn fjölmennasti ferðamannastaður landsins, Geysir í Haukdal er allur að drabbast niður vegna ágangs ferðamanna enda breytist staðurinn í leirfor í bleytu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×