Viðskipti innlent

Viðskiptavinir Dróma í mikilli óvissu

Heimir Már Pétursson skrifar
Hópur viðskiptavina Dróma er í mikilli fjárhagslegri óvissu vegna fyrirvara sem fyrirtækið hefur gert við endurútreikning gengistryggðra lána og heldur jafnvel eftir veðrétti í eignum viðskiptavina sem greitt hafa upp lán að loknum endurútreikningum.

Efnahags- og viðskiptanefnd hefur kallað fulltrúa Dróma og Fjármálaeftirlitsins á sinn fund vegna þessa máls.

Frosti Sigurjónsson formaður nefndarinnar hefur gefið Fjármálaeftirlitinu frest til dagsins í dag til að svara tilteknum spurningum vegna þeirra fyrirvara sem Drómi hefur sett við endurútreikning lánanna og til hvaða aðgerða Fjármálaeftirlitið hyggst grípa til vegna þessa.

En svo virðist sem Drómi sé eina fjármálafyrirtækið sem sett hefur fyrirvara sem þessa við endurútreikning gengistryggðra lána, sem setur viðskiptavini Dróma í meiri fjárhagslega óvissu en viðskiptavini annarra fjármálafyrirtækja.

Hvað felst í þessum fyrirvörum?

„Til dæmis það að þegar lánin eru endurreiknuð og lækkuð til samræmis við svokölluð Árna Pál-lög, þá hefur Drómi sett fyrirvara gagnvart sínum viðskiptavinum að hugsanlega séu þessi lög ekki lögmæt, að hann muni þá afturkalla þennan endurreikning," segir Frosti.

Viðskiptavinir sem gert hafa upp lán sín við Dróma að loknum endurútreikningum gætu því hugsanlega fengið bakreikning frá fyrirtækinu síðar.

„Það sem okkur skilst er að Drómi viðheldur veðum í húsum, jafnvel þó að búið sé að greiða þessi endurreiknuðu lán og óskað eftir að veðum sé þá aflétt af eignum sem þeir geti keypt og selt húsin sín eða gert eitthvað annað, þá segir Drómi að okkur sé sagt að það sé ekki hægt að aflétta þessum veðum því hugsanlega eigi Drómi meiri rétt," segir hann.

Þetta sé eðlilega mjög erfið staða fyrir fólk að vera í og skapi mikla óvissu. Frosti segir að hugsanlega hafi Drómi brotið lög með þessu hátterni og þá hafi Fjármálaeftirlitið heimildir til aðgerða gegn slitastjórn félagsins.

„Til dæmis getur leitt til þess að Fjármálaeftirlitinu, er skylt eða heimilt, að beina kröfu til héraðsdóms að víkja slitastjórn ef ekkert gengur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×