Handbolti

Ólafur getur fengið þig til að trúa á hvað sem er

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Ég hef spilað með mörgum góðum en hann er besti handboltamaður og væntanlega einn magnaðasti karakter og persónuleiki sem maður hefur kynnst í gegnum tíðina," segir Guðjón Valur Sigurðsson um Ólaf Stefánsson.

Guðjón Valur verður í eldlínunni með íslenska karlalandsliðinu í handbolta gegn Rúmenum í Laugardalshöll annað kvöld. Leikurinn er sá síðasti í undankeppni EM 2014 og um leið kveðjuleikur Ólafs með landsliðinu.

Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður á Stöð 2, hitti á Guðjón Val fyrir landsliðsæfingu í Laugardalnum í dag.

„Hann er búinn þeim hæfileika að geta fengið þig til að trúa á hvað sem er. Það hafa margir landsliðsmenn fengið að reyna. Hann er góður maður heim að sækja líka. Þetta er ekki allt samað bundið við handbolta hjá mér. Við höfum verið saman í liði og landsliði lengi. Maður hefur eytt mörgum klukkutímum með honum og það er tími sem manni þykir rosalega vænt um í augnablikinu," segir Guðjón Valur. Hann segir Ólaf góðan mann, ofsalega vitran auk þess að vera rólegur og yfirvegaður.

„Mér finnst að Íslendingar eigi að líta á það þannig að það hafi verið forréttindi að fá að horfa á hann og fengið að eiga hlut í honum og hlut í hans ferli því hann er náttúrulega stoltur Íslendingur. Ég lít á það sem forréttindi oghann hefur gert mig að betri leikmanni í gegnum tíðina," segir Guðjón Valur.

Aðspurður hvort Ólafur sé galdramaður með boltann segir hornamaðurinn:

„Við skulum segja að hann sé góður handboltamaður. Ég hef aldrei séð hann láta boltann hverfa. Kannski býður hann upp á það á morgun. Kannski kemur hann með eitthvað nýtt," sagði Guðjón Valur og hló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×