Viðskipti innlent

Spá óbreyttri verðbólgu í maí

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs lækki um 0,1% milli mánaða. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan vera óbreytt í 3,3% í maí.

Fjallað er um spánna í Hagsjá deildarinnar. Þar segir m.a. að sterkara gengi krónunnar haldi áfram að hafa áhrif á verðlag í maí rétt eins og undanfarna mánuði. Búist er við því að áhrifin muni einnig sjást í matvælaverði að þessu sinni og að það kunni að hafa lækkað um 0,2% á milli mælinga.

Samkvæmt verðkönnun lækkaði bensínverð um 1,3% á milli mánaða. Verð á nýjum bifreiðum lækkaði um 1,2% og má rekja hvort tveggja til styrkingar krónunnar.

„Við búumst við að mest áhrif til hækkunar komi frá húsnæðisliðnum og hótelum og veitingastöðum....Gert er ráð fyrir því að verð á hótelgistingu og veitingastöðum hækki  í aðdraganda þess að nú fara í hönd veltumestu mánuðirnir í ferðaþjónustu,“ segir í Hagsjánni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×