Handbolti

Þetta er mikill heiður

Ólafur fagnar sigri í Meistaradeildinni með Ciudad Real.
Ólafur fagnar sigri í Meistaradeildinni með Ciudad Real. mynd/vilhelm

Eins og kom fram um daginn þá var Ólafur Stefánsson valinn í úrvalslið Meistaradeildarinnar frá upphafi. Keppnin er 20 ára gömul og Ólafur þykir hafa skarað fram úr í stöðu hægri skyttu.

Ólafur hefur fjórum sinnum orðið Meistaradeildarmeistari. Hann vann keppnina með Magdeburg og Ciudad Real.

"Þetta er mikill heiður fyrir mig því við erum að tala um langan tíma eða heil 20 ár. Þetta er ekki eins og að vera valinn maður leiksins heldur er aðeins pláss fyrir einn mann þarna á löngum tíma," segir Ólafur í samtali við heimasíðu Meistaradeildarinnar.

"Það eru margir góðir leikmenn sem koma til greina. Menn eins og Urdangarin, Laszlo Nagy og Kim Andersson. Ég reyni að vera ánægður og njóta þessa heiðurs."

Ólafur segir í viðtalinu að fyrsti Meistaradeildartitillinn með Magdeburg hafi verið afar ánægjulegur.

"Sá titill kom á óvart. Við unnum keppnina nánast fyrir slysni. Við unnum vel fyrir þessu en þetta var sérstakt því við komum á óvart."

Ólafur segist halda með Kiel í úrslitahelginni sem er um næstu helgi enda eru þrír Íslendingar í liðinu.

Hann mun ekki geta tekið sjálfur á móti verðlaununum sínum en faðir hans, Stefán Eggertsson, mun veita þeim viðtöku þar sem Ólafur er enn að spila í Katar.

Lesa má viðtalið í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×