Viðskipti innlent

FME: Brotalamir í rekstri Lífeyrissjóðs bænda

Fjármálaeftirlitið hefur gert ýmsar athugasemdir við rekstur Lífeyrissjóðs bænda. Meðal annars var gerð athugasemd við lánveitingar til tveggja sjóðfélaga með lánsveði í eignum einkahlutafélags þeirra. Einnig að sjóðurinn hafi ekki farið eftir ákvæðum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Fjallað er um málið á vefsíðu eftirlitsins. Þar segir að Fjármálaeftirlitið hefur framkvæmt heildarathugun hjá Lífeyrissjóði bænda með vísan til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Athugunin fór fram með gagnaöflun og heimsókn á starfsstöð lífeyrissjóðsins hinn 3. janúar í ár. Fjármálaeftirlitið óskaði eftir því við stjórn sjóðsins að hún fæli innri endurskoðanda að gera sérstaka grein fyrir því hvort gripið hefði verið til viðeigandi ráðstafana vegna athugasemda og ábendinga sem vikið er að í skýrslunni. Greinargerð innri endurskoðanda skal berast Fjármálaeftirlitinu eigi síðar en 8. júlí.

Margvíslegar athugasemir

Helstu athugasemdir sem Fjármálaeftirlitið gerði við starfsemi sjóðsins voru eftirfarandi:

Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við að innri starfsreglur sjóðsins hafi ekki verið yfirfarnar í samræmi við ákvæði þeirra reglna sem sjóðurinn hefur sjálfur sett sér. Einnig að ekki hafi verið fylgt eftir í öllum tilfellum verklagsreglum um verðbréfaviðskipti starfsmanna sjóðsins.

Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við að ekki hafi verið farið eftir ákvæðum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Er sérstaklega litið til þess að sjóðurinn hafi ekki sett sér skriflegar innri reglur.

Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við eignastýringarsamning sjóðsins. Samningurinn hafði ekki verið uppfærður í þrjú ár til samræmis við þá fjárfestingastefnu sem gildir fyrir sjóðinn hverju sinni, en hún er að jafnaði yfirfarin a.m.k. árlega.

Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við lánveitingar til tveggja sjóðfélaga með lánsveði í eignum einkahlutafélags þeirra. Fjármálaeftirlitið taldi jafnframt í nokkrum tilfellum að upplýsingagjöf sjóðsins þyrfti að vera nákvæmari.

Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við að sjóðurinn væri ekki með skriflega þjónustusamninga við tvo hýsingaraðila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×