Innlent

Sigmundur Davíð verður forsætisráðherra

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verður forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og mun gegna því embætti allt kjörtímabilið, samkvæmt heimildum fréttastofu. Ríkisstjórnarsamstarfið verður að öllum líkindum kynnt á þriðjudag.

Stjórnarmyndunarviðræður formanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eru á lokametrunum og á samkomulag að liggja fyrir um eða eftir helgi.

Áður en ríkisstjórnarsamstarfið verður kynnt þurfa flokksráð Sjálfstæðisflokksins og miðstjórn Framsóknarflokksins að samþykkja samstarf flokkanna tveggja. Er því fremur búist við að þetta verði á þriðjudaginn næstkomandi. Það er fyrst eftir að samþykki þessara stofnana flokkana liggja fyrir sem formenn flokkanna tveggja setjast niður og ákveða skiptingu ráðuneyta.

Skipting ráðuneyta hefur þó óformlega verið rædd, samkvæmt heimildum fréttastofu. Verður ráðherrum fjölgað um tvo og verða þeir því samtals tíu. Fjölgun næst með því að skipta velferðarráðuneytinu upp í heilbrigðisráðuneyti annars vegar og félagsmálaráðuneyti hins vegar og með skiptingu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti í tvö ráðuneyti.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er gengið út frá því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verði forsætisráðherra og gegni því embætti allt kjörtímabilið.

Framsóknarmenn leggja ríka áherslu á að ráðast strax í leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðisskuldum.

Sigurður Hannesson, stærðfræðingur sem stýrir eignastýringu MP banka, hefur verið nánasti ráðgjafi formanns Framsóknarflokksins í útfærslu á þessari leið.

„Í grófum dráttum virkar þetta þannig að þrotabúin sjálf þurfa að afskrifa eitthvað af sínum eignum, annars hefur það neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð landsins og það er ekki hægt að hleypa þeim út. Þannig myndast ákveðið svigrúm sem framsóknarmenn vilja nýta,“ segir Sigurður.

Sigurður sagði í samtali við fréttastofu að búið væri að útfæra leiðina sem væri fær, en hvort hún yrði ofan á væri háð samkomulagi formanna flokkanna tveggja.

Sigurður sagði að grunnspurningarnar væru tvær. Annars vegar, hversu miklum fjármunum yrði varið í að leiðrétta verðtryggð húsnæðislán. Og hins vegar, hvernig ætti að dreifa þessum fjármunum, þ.e hvort farið yrði í almenna niðurfærslu eða leið sem tæki á vanda þeirra sem verst eru staddir vegna hins margumrædda forsendubrests.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×