Viðskipti innlent

Advania smíðar vöruhús Íbúðalánasjóðs

Ottó Magnússon ráðgjafi Capacent, Þórdís Þórsdóttir sviðsstjóri upplýsingatækni hjá Íbúðalánasjóði, Sigurður Erlingsson forstjóri Íbúðalánasjóðs, Gestur G. Gestsson forstjóri Advania og Sigríður Þórðardóttir forstöðumaður viðskiptagreindar hjá Advania.
Ottó Magnússon ráðgjafi Capacent, Þórdís Þórsdóttir sviðsstjóri upplýsingatækni hjá Íbúðalánasjóði, Sigurður Erlingsson forstjóri Íbúðalánasjóðs, Gestur G. Gestsson forstjóri Advania og Sigríður Þórðardóttir forstöðumaður viðskiptagreindar hjá Advania.
Í kjölfar útboðs Ríkiskaupa á síðasta ári fyrir Íbúðalánasjóð á vöruhúsi gagna og hugbúnaði á sviði viðskiptagreindar var gengið til samninga við Advania og samstarfsaðila fyrirtækisins, SAP Business Objects.

Í tilkynningu segir að verkefnið sé nú hafið og áætluð verklok eru á haustdögum 2013.

„Þetta er umfangsmikið verkefni, en því miðar vel áfram. Markmið þess er að vinnsla gagna verði miðlæg og tryggi þannig örugga og samræmda upplýsingagjöf Íbúðalánasjóðs. Uppbygging vöruhússins mun auka hagræði í allri gagnavinnslu og vinnslu upplýsinga fyrir Fjármálaeftirlit og aðra eftirlitsaðila. Með vöruhúsinu mun upplýsingaflæði til stjórnenda batna til muna, sem styður við betri og hraðari ákvörðunartöku. Allar greiningar á lánasafni Íbúðalánasjóðs, sem er stærsta lánasafn landsins, munu verða hraðvirkari og nákvæmari, þannig að stjórnendur og sérfræðingar fá aukinn  tíma í aðgerðir. Samhliða verða gögn úr mismunandi kerfum og grunnum sjóðsins gerð aðgengileg fyrir stjórnendur, starfsmenn og ytri aðila, eftir því sem þörf krefur," segir Sigurður Erlingsson forstjóri Íbúðalánasjóðs í tilkynningunni.

„Íbúðalánasjóður og Ríkiskaup vönduðu mjög til verka við undirbúning þessa útboðs og ráðgjafarfyrirtæki þeirra í verkefninu er Capacent. Það var þess vegna ákveðinn gæðastimpill á lausnir okkar á sviði viðskiptagreindar að hreppa verkefnið. Advania hefur um árabil unnið markvisst að uppbyggingu öflugs viðskiptagreindarteymis, sem meðal annars veitir ráðgjöf við stefnumótun og markmiðasetningu varðandi vöruhús gagna og viðskiptagreind," segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×