Viðskipti innlent

Spáir því að verðbólgan minnki í 2,9% í apríl

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) lækki um 0,2% í apríl. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan minnka úr 3,9% í 2,9%.

Fjallað er um málið í Hagssjá deildarinnar. Þar segir að bensínverð hafi mestu áhrifin í spánni. Samkvæmt verðkönnun Hagfræðideildar lækkaði bensín um 5% milli mánaða. Þar fer saman lækkandi heimsmarkaðsverð og sterkara gengi krónunnar.

„Sterkara gengi krónunnar heldur áfram að hafa áhrif á verðlag í mánuðinum. Þannig hafa mörg bílaumboð lækkað verð á nýjum bílum ásamt því að við teljum að verð á húsgögnum og heimilisbúnaði muni lækka.,“ segir í Hagsjánni.

„Við gerum ráð fyrir að ferðir og flutningar muni lækka í mánuðinum. Flugfargjöld til útlanda eru sá liður sem sveiflast mest og erfiðast hefur reynst að spá fyrir um. Engu að síður er sterkt samband milli þróunar eldsneytisverðs og verðs á flugfargjöldum til útlanda og því er gert ráð fyrir lækkun á liðnum í heild.

Við búumst við mestum hækkunum á fötum og skóm ásamt húsnæðisliðnum án reiknaðrar húsaleigu. Einnig teljum við að matvara hækki lítillega þrátt fyrir mikla styrkingu krónu. Þar inní spilar m.a. sykurskatturinn sem settur var á í mars.“

Bráðabirgðaspá Hagfræðideildar gerir ráð fyrir að VNV hækki um 0,2% í maí, 0,3% í júní og lækki um 0,6% í júlí. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan verða í kringum 3% á næstu mánuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×