Viðskipti innlent

Staða ríkisfjármála Íslands góð í alþjóðlegum samanburði

Frumjöfnuður hins opinbera á Íslandi verður 2,5% af landsframleiðslu (VLF) í ár og hefur batnað um 9% af landsframleiðslu frá árinu 2009. Þetta er mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), en á vorfundi sjóðsins í Washington um helgina var kynnt skýrsla um stöðu opinberra fjármála í aðildarríkjum hans.

Þetta kemur fram á vefsíðu stjórnarráðsins. Þar segir að AGS skoðaði stöðuna í ár í 30 þróuðum ríkjum, m.a. frumjöfnuð, sem er jöfnuður tekna og gjalda að fjármagnstekjum og –gjöldum undanskildum. Aðeins í þremur ríkjanna er frumjöfnuður hærra hlutfall af landsframleiðslu en hér á landi: Í Noregi, Singapore og á Ítalíu. Af öðrum ríkjum með jákvæðan frumjöfnuð má nefna Þýskaland, þar sem hann verður 1,8% af landsframleiðslu.

Frumjöfnuður ríkjanna 30 er að meðaltali -3,0% af landsframleiðslu. Í Japan verður hann -9.0% af landsframleiðslu og -5,0% í Bretlandi. Í Bandaríkjunum er þessi tala -4,6%. Svíþjóð, Finnland og Danmörk verða öll með neikvæðan frumjöfnuð á árinu.

AGS skoðar einnig heildarjöfnuð ríkjanna, en heildarjöfnuður er mismunur á heildartekjum og heildargjöldum.  Sjóðurinn metur stöðuna á Íslandi þannig að heildarjöfnuður hér á landi verði neikvæður um sem nemur 1,3% af VLF. Af löndunum 30 eru aðeins sex með jákvæðan heildarjöfnuð, sem þýðir að hið opinbera tekur til sín fjármuni úr hagkerfum þessara landa.  Annars staðar bætir opinberi geirinn inn í hagkerfin. Meðaltalið er 4,7% af landsframleiðslu ríkjanna 30. Hlutfallslega er innspýtingin mest í Japan, 9,8% af landsframleiðslu, en í Bretlandi er heildarjöfnuður neikvæður um 7% og um 6,5% í Bandaríkjunum.

AGS metur brúttóskuldir ríkjanna 30 sem 109% af landsframleiðslu þeirra í ár. Á þennan mælikvarða er Ísland með 91,9% brúttóskulda af landsframleiðslu. Allmörg ríki eru þó með hærri brúttóskuldir hins opinbera. Þar má nefna Japan með 245%, Grikkland með 179%, Ítalíu með 131% og Írland og Portúgal með 122%. Í Bandaríkjunum er skuldahlutfallið 108% af landsframleiðslu og 93,6% í Bretlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×