Viðskipti innlent

Hagvaxtarspá AGS mun svartsýnni en spá Seðlabankans

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) spáir því að hagvöxtur hér á landi verði hægur á næstunni, eða 1,9% í ár og 2,1% á næsta ári.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að spá AGS fyrir hagvöxt hér á landi í ár er í takti við nýútkomna spá Hagstofnunnar, en þeir spá líka 1,9% hagvexti. AGS er hins vegar nokkuð svartsýnni á næsta ár, en Hagstofan spáir þá 2,7% hagvexti. Spá AGS er aftur á móti umtalsvert svartsýnni á hagvöxtinn hér á landi á næstunni en Seðlabankinn sem í sinni nýjustu spá, sem kom út í febrúar síðastliðnum, gerði ráð fyrir að hagvöxturinn í ár yrði 2,1% og 3,7% á næsta ári.

Munurinn liggur væntanlega að verulegu leyti í mismunandi spám fyrir fjárfestingu. AGS spáir því að fjárfestingarstigið á Íslandi verði áfram lágt. Spá þeir því að fjárfesting muni nema tæpum 15% af landsframleiðslu á þessu ári en 16% árið 2014.

Í Morgunkorninu segir einnig að þrátt fyrir hægan vöxt reiknar AGS með því að hann verði nægur til að enn dragi úr atvinnuleysi. Spáir stofnunin því að atvinnuleysið verði 5,0% í ár og 4,6% á næsta ári. Reikna þeir með því að verðbólgan verði áfram há, eða 4,7% í ár og 4,0% á næsta ári. Kemur þetta fram í efnahagspá þeirra fyrir heiminn sem birt var í gær.

Þrátt fyrir að hagvöxtur verði hér hægur á næstunni mun hann verða nokkuð meiri að mati AGS en að meðaltali í nálægum löndum. Þannig spáir stofnunin því að 0,3% samdráttur verði á evrusvæðinu í ár og að hagvöxtur næsta árs verði þar einungis 1,1%. Þá spáir stofnunin því að hagvöxtur í Bretlandi verði 0,7% í ár og 1,5% á næsta ári. Öllu meiri hagvexti spá þeir hins vegar í Bandaríkjunum eða 1,9% í ár og 3,0% á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×