Viðskipti innlent

Ölgerðin veitir 100 milljónum til 100 samfélagsverkefna

Svanhildur Sigurðardóttir, samfélags – og samskiptastjóri, Októ Einarsson, stjórnarformaður, Andri Þór Guðmundsson forstjóri, og Stefán Pálsson sagnfræðingur. Mynd/ María Kjartansdóttir
Svanhildur Sigurðardóttir, samfélags – og samskiptastjóri, Októ Einarsson, stjórnarformaður, Andri Þór Guðmundsson forstjóri, og Stefán Pálsson sagnfræðingur. Mynd/ María Kjartansdóttir
Ölgerð Egils Skallagrímssonar fagnar því í dag að 100 ár eru frá því að Tómas Tómasson stofnaði fyrirtækið í kjallara Þórshamars við Templarasund.  Á þessum tímamótum mun fyrirtækið veita 100 milljónum króna til 100 samfélagsverkefna.

Í tilkynningu segir að fyrirtækið var í fyrstu starfrækt í tveimur herbergjum í kjallara hússins, sem Alþingi á í dag, en er nú í 20.000 fermetra húsnæði við Grjótháls.

Það voru Októ Einarsson, stjórnarformaður Ölgerðarinnar og Andri Þór Guðmundsson, forstjóri, sem greindu frá því að fyrirtækið ætlaði að beita sér sérstaklega í ýmsum samfélagsverkefnum á afmælisárinu.

„Ölgerðin er rótgróið fyrirtæki sem hefur frá upphafi lagt áherslu á að vera í góðu sambandi við þjóðina og að við viljum gefa af okkur og þakka þjóðinni þannig samfylgdina síðustu 100 árin," segir Októ Einarsson, stjórnarformaður Ölgerðarinnar í tilkynningunni.

„Við störfum af ábyrgð og það er hluti af okkar starfi að sinna samfélaginu og þakka fyrir okkur með því að gefa til baka. Á afmælisárinu munum við vinna að 100 verkefnum sem snúa að ábyrgð okkar gagnvart samfélaginu og veitum 100 milljónum króna í margvísleg verkefni," segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.

Ölgerðin hefur í 100 ár stutt dyggilega við ýmis samfélagsverkefni og veitt tugi milljóna króna árlega í alls kyns verkefni en ætlar nú að vinna markvissar en áður. Verkefnum verður skipt í fjóra flokka og verður árangur nú mældur og gefinn út opinberlega á hverju ári í samræmi við skilmála Global Compact verkefnis Sameinuðu þjóðanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×