Viðskipti innlent

Valka hlaut Nýsköpunarverðlaunin í ár

Fyrirtækið Valka hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2013 sem afhent voru á Nýsköpunarþingi í morgun, en Valka er hátæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun á tækjum og hugbúnaði fyrir fiskvinnslu. Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku veitti verðlaununum viðtöku.

Í tilkynningu segir að á Nýsköpunarþingi voru íslensk sprettfyrirtæki gerð að umfjöllunarefni og voru þrír fyrirlesarar fengnir til að segja frá hraðvaxta fyrirtækjum og stöðu íslenskra sprettfyrirtækja eða svokallaðra „gazella". Tæplega 300 manns sóttu þingið, sem haldið var á Grand hótel Reykjavík.

Valka ehf. var stofnað árið 2003 af Helga Hjálmarssyni verkfræðingi sem er jafnframt framkvæmdarstjóri fyrirtækisins en þar starfa nú 18 manns við tækjahönnun, hugbúnaðargerð, framleiðslu og sölu. Valka er hátæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun á tækjum og hugbúnaði fyrir fiskvinnslu.

Valka býður margs konar lausnir og búnað allt frá stökum vogum, innmötunarvélum og flokkurum til flæði- og skurðarlína og pökkunarkerfa. RapidFish hugbúnaður Völku er einfalt en öflugt framleiðslustjórnar- og pantanakerfi fyrir fiskvinnslur og sölufyrirtæki. Fyrirtækið hlaut viðurkenningu á Íslensku sjávarútvegssýningunni fyrir Aligner flokkarann sem flokkar og leggur flök og bita sjálfvirkt í kassa og á árinu 2011 seldi Valka svo flokkunarbúnað og pökkunarlínu fyrir heilan lax til Noregs og er það jafnframt stærsta einstaka sala fyrirtækisins, en verðmæti verkefnisins nam um 400 milljónum íslenskra króna.

Öll samsetning á tækjum Völku fer fram innanhúss en aðkeypt smíði er að mestu leyti unnin af íslenskum verktökum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×