Viðskipti innlent

Hvetja Seðlabankann til gjaldeyriskaupa á millibankamarkaðinum

Greining Íslandsbanka hvetur Seðlabankann til að hefja að nýju gjaldeyriskaup á millibankamarkaðinum með gjaldeyri. Nú sé lag til þess í ljósi mikillar styrkingar á gengi krónunnar frá áramótum. Greining Arion banka hefur hvatt til þess sama í Markaðspunktum sínum þar sem spurt var nýlega hvort Seðlabankinn væri sofandi fyrir þessum möguleika.

Í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka segir að Seðlabankinn ákvað í upphafi árs að auka áherslu á beitingu gjaldeyrisforða bankans í því skyni að draga úr gengissveiflum og styðja þar með við peningastefnuna. Í því skyni hætti bankinn reglulegum gjaldeyriskaupum og hefur einnig selt u.þ.b. 77 milljónir  evra með beinum og óbeinum hætti á gjaldeyrismarkaði frá gamlaársdegi á síðasta ári í því skyni að styðja við gengi krónu.

„Í ljósi mikillar styrkingar krónu síðustu mánuði, framangreinds markmiðs um að draga úr gengissveiflum og þess hversu gjaldeyrisforði bankans er skuldsettur hlýtur hann nú að huga að því að hefja regluleg gjaldeyriskaup að nýju,“ segir í Morgunkorninu.

„Má þar nefna að ef bankinn tekur á ný að kaupa 3 m. evra í viku hverri á markaði tekur það hann hálft ár að afla til baka þess gjaldeyris sem ráðstafað var í framangreindum aðgerðum.“

Þá segir að raunar væri það ráðlegt fyrir Seðlabankann að kaupa enn meiri gjaldeyri í sumar ef þróunin verður með líkum hætti í fyrra, en bankinn gerði að mati greiningarinnar mistök í því að vera ekki stórtækari í gjaldeyriskaupum þegar hin skammvinna styrking krónu stóð yfir í frá júlíbyrjun fram í miðjan ágúst á síðasta ári.

„Þar sem gengi krónu er nú á svipuðum slóðum og þegar hæst hóaði í fyrra er ekki eftir neinu að bíða fyrir bankann, enda eru honum hæg heimatökin að slaka á kaupunum af nýju ef bakslag verður í gengisþróun krónu á næstunni,“ segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×