Viðskipti erlent

Facebook rukkar fyrir skilaboð

MYND/GETTY
Facebook mun á næstunni innleiða kerfi þar sem rukkað verður fyrir að senda skilaboð.

Þessi nýjung á aðeins við um skilaboð sem fólk sendir til þeirra sem ekki eru þegar á vinalista þeirra. Stjórnendur Facebook boðuðu breytinguna á dögunum og er hún nú þegar í prófunum í Bandaríkjunum.

Mark Zuckerberg, forstjóri og annar stofnenda Facebook, segir að kerfinu sé ætlað að koma í veg fyrir ruslpóst og auglýsingar sem reglulega fylla pósthólf notenda. Gjaldið verður frá hundrað og tuttugu krónum til eitt þúsund og átta hundruð.

Hingað til hafa notendur samskiptasíðunnar getað skipst á skilaboðum án gjalds. Skilaboð milli einstaklinga sem ekki eru vinir á Facebook fara í sérstakan flokk, merktur sem annað.

Með breytingunni verður notendum gert kleift að greiða lágt gjald til að forgangsraða skilaboðum sínum. Jafnframt verður hægt að greiða hærra gjald fyrir að senda þekktum einstaklingum skilaboð.

Sérfræðingar segja breytingarnar bera vitni um framtíð samskiptasíðunnar en hún hefur átt í nokkrum erfiðleikum með að auka tekjuöflun sína. Rúmlega milljarður manna notar Facebook að staðaldri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×