Viðskipti innlent

Um tíu innherjamál hafa verið til rannsóknar hjá saksóknara

Magnús Halldórsson skrifar
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Um tíu innherjamál hafa verið til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara, sem tengjast hruni fjármálakerfisins. Fjármálaeftirlitið kærði eða vísað 22 innherjamálum til embættisins er tengjast hruni fjármálakerfisins.

Friðfinnur Ragnar Sigurðsson, fyrrverandi starfsmaður Glitnis, var í gær dæmdur í eins árs óskilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa selt hlutabréf sín, á grundvelli innherjaupplýsinga, á tímabilinu frá mars til september 2008.

Samtals seldi hann bréf í Glitni sem voru virði tæplega 20 milljóna, og var meðal annars vitnað til þess í dómi Héraðsdóms Reykjaness, þar sem dómur var fjölskipaður, að Friðfinnur hefði búið yfir upplýsingum sem ekki voru aðgengilegar almenningi og markaðnum almennt, og því hefði honum verið óheimilt að selja hlutabréf sín.

Í dómnum er sérstaklega tekið fram að ekki hafi verið ástæða til þess að skilorðsbinda refsinguna, vegna þeirra varnaðaráhrifa sem dómar í málum sem þessum þurfa að skapa.

Þetta er aðeins annar dómurinn í Íslandssögunni þar sem maður er fundinn sekur um innherjasvik, en í hinu málinu var Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir að selja hlutabréf í Landsbankanum í september 2008, á grundvelli innherjaupplýsinga.

Embætti sérstaks saksóknara er nú með um tíu innherjamál til rannsóknar, en ekki er útilokað að þeim fjölgi. Fjármálaeftirlitið kærði og vísaði 22 innhverjasvikamálum til embættisins, eftir hrunið, en rannsóknum eftirlitsins á málum er tengjast hruninu er nú lokið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×