Viðskipti innlent

Ætla að selja Íslandsbanka og Arion banka á 150 milljarða

Magnús Halldórsson skrifar
Slitastjórnir Glitnis og Kaupþings stefna að því að selja Íslandsbanka og Arion banka fyrir nærri 150 milljarða króna. Hlutur íslenska ríkisins í bönkunum er samkvæmt því mati um 14 milljarða króna virði. Viðræður milli stjórnvalda, seðlabankans og kröfuhafa föllnu bankanna standa nú sem hæst.

Kröfuhafar í bú Glitnis og Kaupþings, þar helst erlendir skuldabréfa- og vogunarsjóðir, eiga nú í samningaviðræðum við stjórnvöld um hvernig megi leysa úr stöðu þeirra þannig að fjármálastöðugleika hér á landi verði ekki ógnað, ef kröfuhafarnir fá beinan aðgang að hundruðum milljarða eignum sínum með nauðasamningum.

Í þessu viðræðum er ekki síst einblínt á að selja Íslandsbanka og Arion banka til íslenskra fyrirtækja og fjárfesta, og þannig minnka krónueign erlendu kröfuhafana, og létta um leið þrýstingi á gengi krónunnar til framtíðar litið.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er horft til þess að Íslandsbanki og Arion banki verði seldir með margfaldara sem er 0,55 sinnum eigið fé. Miðað við það er Íslandsbanki um 72 milljarða virði og Arion banki ríflega 81 milljarða virði.

Það sem kæmi í hlut ríkisins, ef það myndi ákveði að selja, er um 14 milljarðar útfrá þessu verðmati, 3,5 milljarðar vegna fimm prósenta hlutar í Íslandsbanka og 10,5 milljarðar vegna 13 prósenta hlutar í Arion banka. Kaupendur yrðu að líkindum íslenskir lífeyrissjóðir og aðrir íslenskir fjárfestar, sem þá gætu greitt fyrir með hluta af erlendum eignum sínum, en heildarvirði erlendra eigna lífeyrissjóðanna er í dag ríflega 500 milljarðar króna.

Fleira hangir á spýtunni, en að fá nýja eigendur að bönkunum í samhengi samhliða nauðasamningum við kröfuhafa. Meðal annars vilja erlendir kröfuhafar fá gjaldeyri sem er inn á reikningum Íslandsbanka og í staðinn myndu lánasöfn úr þrotabúi Glitnis sem bera nafnið Haf og Holt, og eru lán í erlendri mynt til sjávarútvegsfyrirtækja og fasteignafélaga m.a., verða hluti af eignasafni Íslandsbanka.

Enginn afsláttur yrði gefinn, heldur yrði um skipti að ræða. Með þessum aðgerðum m.a., samhliða sölu á bönkunum, myndu innlendar krónueignir í eigu þrotabúa Glitnis og Kaupþings fara úr ríflega 400 milljörðum í lítið sem ekkert. Erlendar eignir í þrotabúunum færu þá til kröfuhafa á grundvelli nauðasamninga þar um.

Einnig er horft til þess, í þessum viðræðum stjórnvalda, seðlabankans og kröfuhafa, að endurfjármögnun á skuldum í erlendri mynt geti átt sér stað samhliða sölu bankanna. Meðal annars að lengja í lánum Landsbankans gagnvart kröfuhöfum gamla Landsbankans í erlendri mynt, og jafnvel að koma að endurfjármögnun skulda Orkuveitu Reykjavíkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×