Viðskipti innlent

Styrking krónunnar kostar allan keyptan gjaldeyrisforðann

Gengi krónunnar hefur styrkst um rúmlega 6% frá janúar. Það hefur hinsvegar kostað Seðlabankann allan þann gjaldeyri sem hann keypti á síðasta ári.Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Þar segir að Seðlabankinn hóf inngrip á gjaldeyrismarkaði í lok desember s.l. og hefur síðan selt 71 milljón evrur fyrir krónur eða sem samsvarar yfir 12 milljörðum króna. Þetta er mun meira en hann keypti af gjaldeyri á síðasta ári.Í Morgunkorninu segir að augljóst sé að gjaldeyrisinngrip Seðlabankans hafa heppnast vel m.t.t. þess að þau hafa náð að styrkja krónuna umtalsvert.

Hitt er hins vegar áhyggjuefni að bankinn var farinn að nýta til inngripanna gjaldeyrisforða sem er nær að fullu tekinn að láni. Verkefni bankans hefur verið að byggja upp óskuldsettan hluta gjaldeyrisforðans og keypti hann reglulega inn í forðann á síðasta ári með það að markmiði. Þarf Seðlabankinn því væntanlega að vera þeim mun stórtækari kaupandi á gjaldeyrismarkaði í vor og sumar þegar innflæði gjaldeyris eykst að nýju, að því er segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×