Viðskipti innlent

Gistinóttum fjölgaði um 25% í janúar

Gistinætur á hótelum í janúar voru 90.300 og fjölgaði um 25% frá janúar í fyrra. Gistinætur erlendra gesta voru um 83% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 28% frá sama tíma í fyrra. Jafnframt fjölgaði gistinóttum Íslendinga um 13%.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að á höfuðborgarsvæðinu voru 73.600 gistinætur á hótelum í janúarmánuði og fjölgaði um 23% frá sama mánuði í fyrra.

Gistinóttum fjölgaði einnig umtalsvert á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða, voru 2.100 nú en 900 í janúar í fyrra. Á Norðurlandi voru 3.800 gistinætur í janúar og fjölgaði um 55% frá því í fyrra en á Austurlandi voru 1.300 gistinætur og fjölgaði um 58%.

Á Suðurnesjum voru um 4.400 gistinætur í janúar, en það er 25% aukning frá sama mánuði í fyrra. Á Suðurlandi voru gistinætur tæplega 5.200 sem er álíka mikið og í janúar í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×