Viðskipti innlent

Allt á huldu varðandi lán til Kaupþings - skýrsla lögð fyrir Alþingi

Magnús Halldórsson skrifar
Björn Valur Gíslason, þingmaður VG og formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Björn Valur Gíslason, þingmaður VG og formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Fjárlaganefnd Alþingis ákvað í morgun að skila Alþingi skýrslu um samskipti nefndarinnar við Seðlabanka Íslands, í tengslum við lán Seðlabankans til Kaupþings upp á 500 milljónir evra 6. október 2008. Nefndin hefur enn engar upplýsingar fengið sem varpa ljósi á hvers vegna lánið var veitt og hver tók lokaákvörðun um það.

Fjárlaganefnd Alþingis fundaði í morgun um þrautavaralán Seðlabanka Íslands til Kaupþings upp á 500 milljónir evra, liðlega 86 milljarða króna, hinn 6. október 2008, skömmu áður en bankinn féll og sama dag og neyðarlögin voru samþykkt á Alþingi.

Óljóst er hverjar endurheimtur verða af þessari lánveitingu, en að hluta eru þær tengdar gengi danska skartgripaframleiðandans Pandóru, en lánið var upphaflega veitt með veði í danska bankanum FIH.

Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar Alþingis og þingmaður VG, segir að nefndin muni nú taka saman öll gögn um samskipti við Seðlabanka Íslands vegna málsins, og afhenda Alþingi skýrslu um þau, þegar hún er tilbúin.

„Við höfum reynt að afla upplýsinga um þessa lánveitingu frá Seðlabanka Íslands, og hvers vegna hún átti sér stað, en höfum ekki fengið neinar upplýsingar sem máli skipta. Seðlabankinn neitar enn að afhenda upplýsingar, eins og afriti af símtali þeirra tveggja manna sem tóku ákvörðun um þess lánveitingu,“ og vísar til Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, þáverandi formanns stjórnar Seðlabanka Íslands.

Meirihluti fjárlaganefndar stóð að ákvörðuninni um að skila Alþingi skýrslu um samskiptin, en minnihlutinn lagðist ekki gegn því, heldur sat hjá.

„Við höfum nú ákveðið að það verði haldið áfram með þetta mál, með það að markmiði að komast til botns í því hvers vegna þessir miklu fjármunir voru lánaðir á þessum tíma,“ sagði Björn Valur að loknum fundi fjárlaganefndar Alþingis í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×